miðvikudagur, 16. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Engar afkvæmasýningar í sumar -

20. júlí 2010 kl. 13:12

Engar afkvæmasýningar í sumar -

Þegar ákvörðun var tekin í vor varðandi frestun Landsmóts voru sýningar á afkvæmahrossum í lausu lofti eins og margt annað á þessum afdrifaríku vikum í vor.  

Röðun á afkvæmahrossum á Landsmóti er unnin eftir kynbótamatinu þannig að hún er breytileg þar til síðasta hross vorsins á Landsmótsári er komið í dóm, þá er reiknað út nýtt kynbótamat sem raðar hrossum í upp í sæti sem verðlaun á Landsmóti eru svo veitt í samræmi við.

Margir ræktendur og þá sérstaklega stóðhesteigendur leggja mikla vinnu og tíma í að yfirfara stöðu sinna hesta og fylgjast með þeim hrossum sem koma til dóms og þeim sem vænleg eru til þess að ná góðum árangri sem bætir stöðu afkvæmahrossanna.  Þessu fylgir oft á tíðum helmikil spenna og um fátt er meira rætt á meðal hestamanna á ákveðnum tímapunktum á vorin en staða þeirra hesta sem keppa að því að vinna til æðstu verðlauna sem stóðhestur á Íslandi hlýtur, Sleipnisbikarinn.

Í þeirri stöðu sem upp kom í vor lýsti hrossaræktarráðunautur eftir skráningum frá þeim ræktendum sem áhuga hefðu á að efna til afkvæmasýninga á kynbótasýningum sumarsins.

Eiðfaxi sló á þráðinn til Guðlaugs Antonssonar til þess að fá upplýsingar um hvort von væri á afkvæmasýningum í sumar.  Það er skemmst frá því að segja að lítill sem enginn áhugi var hjá hesteigendum að mæta með hross til afkvæmasýninga í sumar, þannig að það er búið að slá þá hugmynd út af borðinu að veita þau verðlaun sem venjulega eru veitt á Landsmóti á öðrum sýningum í sumar.

Það má því búast við að á næsta Landsmóti verði enn meira úrval afkvæmahrossa og baráttan um bikarana en og harðari en verið hefur.  -hg