föstudagur, 18. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Elías og Berglind í Franska liðinu

11. júlí 2019 kl. 11:35

Franska landsliðið 2019

Franska landsliðið var tilkynnt á dögunum í því eru þrír knapar og þar af tveir íslenskir

 

Franska landsliðið var kynnt nú á dögunum, í liðinu eru einungis þrír knapar en tveir af þeim knöpum eru Íslendingum vel kunnugir en það eru þau Elías Þórhallsson og Berglind Inga Árnadóttir.

Liðið er skipað þeim tveimur en Elías mætir með Hilding frá Bergi í fimmgang og gæðingaskeið og Berglind mætir með Hrísey frá Langholtsparti í tölt og fjórgang. Auk þeirra er í landsliðinu Pascale Kugler en hestur hennar er Herjólfur frá Ragnheiðarstöðum

 

Eiðfaxi heyrði í þeim hjónum og spurði út í Franska landsliðið og fleira.


Hvenar fluttust þið til Frakklands og hvar eruð þið staðsett þar í landi?

Við komum hingað til Frakklands í byrjun júní 2018 að skoða aðstæður og ákváðum að taka þessu atvinnutilboði sem okkur bauðst í kjölfarið og komum svo hingað seinna um sumarið. Við erum staðsett í miðju Frakklandi ca. 150km suður af París á æðislegum stað með frábæra aðstöðu. 

Hvers vegna eru svo fáir í Franska liðinu?

Við erum einungis þrjú sem náðum að komast í liðið núna í ár en í vetur voru töluvert fleiri á listanum yfir mögulega keppendur en svo fór að heltast úr lestinni. Hérna í Frakklandi hafa ekki verið haldin WR mót svo fólk þarf að leita út fyrir landið til þess að ná sér í tölur svo það geti náð lágmörkum til að eiga möguleika á að komast í liðið. Þetta gerir fólki erfiðara fyrir en ástæðan er einfaldlega sú að hérna eru (voru) ekki löglegir vellir. Nú á dögunum tókum við nýjan löglegan hringvöll og skeiðbraut í notkun hérna hjá okkur á Pur Cheval svo nú getum við boðið fram aðstöðuna okkar til að halda lögleg mót.

Er nóg að gera ykkur í íslandshestamennsku þarna úti og í hverju felst starf ykkar aðallega?

Við erum aðallega að temja og þjálfa hross í eigu Pur Cheval en erum einnig með nokkur hross úr okkar eigin ræktun hérna. Markmiðið búsins er eins og hjá flestum að búa til góða söluvöru.  Hér á búinu eru um 45 hestar í allt með ungviði og folaldsmerum sem við sjáum líka um. 

Það mætti vera meira um að vera í íslandshestamennsku hérna og vantar alveg lögleg mót svo við höfum verið að fara til Þýskalands til að keppa. Þeir frakkar sem stunda íslandshestamennsku hérna eru mjög áhugasamir og langar okkur virkilega að gera eitthvað í því að hjálpa unga fólkinu að koma sér af stað í keppni. 

 Markmið okkar varðandi þátttöku á HM er einfaldlega að gera okkar allra besta og vera Frökkum vonandi til sóma.

Eiðfaxi þakkar þeim Elíasi og Berglindi fyrir spjallið og óskar þeim alls hins besta á Heimsmeistaramótinu sem og við kynningu og útbreiðslu Íslenska hestsins í Frakklandi