mánudagur, 11. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eldgos spillir fengitíma

21. apríl 2010 kl. 11:02

Stóðhestseigendur þegar farnir að draga í land

Gosið í Eyjafjallajökli gæti hæglega spillt fengitíma hrossa í sumar. Ef gosið heldur áfram með svipuðum krafti, látlaust eða með hléum eins og fordæmi eru fyrir, eru allmiklar líkur á öskufalli, einkum á Suðurlandi. Alla vega af og til, fer eftir veðri og vindum.

Mikill fjöldi stóðhesta er jafnan í girðingum á Suðurlandi, og á því svæði eru án efa langflestar hryssur leiddar undir hesta á landinu. Það er ekki girnilegur kostur að hafa rándýr kynbótahross í girðingum með þá vá yfir sér. Það er mikil áhætta að vera með folaldsmerar á svæðum þar sem hætta er á mengun af völdum öskufalls. Mjólkandi hryssur geta orðið klumsa og folöldin hlotið varanlegan skaða á tönnum og beinum.

Hrossaræktendur munu því vafalítið hugsa sig vel um hvar þeir láta stóðhesta sína og hryssur í girðingar í sumar. Niðurstaðan gæti orðið sú að menn kjósi að halda hryssum á húsi og hafa þær síðan í heimahögum. Vitað er um dæmi þess að eigendur stóðhesta hafi þegar afbókað hesta sína í girðingar nærri gosstöðvunum.