þriðjudagur, 20. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ekki talinn efnilegur

Jens Einarsson
26. október 2009 kl. 13:10

Á bestu heimstíma ársins í 100m skeiði

Af gefnu tilefni tekur undirritaður fram að ég er ekki í valnefnd LH og fjölmiðlafólks um knapa ársins að þessu sinni. Ástæðan er sú að mér finnst löngu tímabært að endurskoða vinnureglur og faglegar forsendur valsins. Tek einnig fram að ég er ekki óskeikull fremur en aðrir og ástæðan alls ekki sú að ég telji sjálfan mig yfir annað nefndarfólk hafinn.

Strax og tilnefningar voru birtar hófst umræða um þær á vefnum, sem og annars staðar. Sú umræða er árviss og yfirleitt ekki á ofsalega háu plani. Fékk ég nokkrar upphringingar vegna þeirra. Nú sé ég að einu nafni hefur verið bætt inn á listann yfir efnilegustu knapana. Leiðrétting sem gerð var eftir á, — eftir ábendingu aðstandanda! Það er fínt. Öllum getur yfirsést.

Það vekur hins vegar verulega athygli að nafn Ragnars Braga Sveinssonar er ekki á þeim lista. Og ekki heldur á lista yfir skeiðknapa. Er hann þó óbeinn heimsmeistari í 100 metra skeiði á þessu ári.

Eftir því sem ég best fæ séð á hann tvo bestu tíma ársins í þeirri grein á hryssunni Storð frá Ytra-Dalsgerði. Báða setta á Íslandsmóti barna og ungmenna í Mosfellsbæ, 7,37 og 7,38 sekúndur. Hann var líka Fjórðungsmótsmeistari í sömu grein á 7,89 sekúndum. Frábær árangur sem ætti að duga til tilnefninga, bæði í efnilegasta knapa og skeiðknapa.

Rök um ungan aldur halda ekki. Fordæmin eru fyrir hendi. Enda hlaut hann verðlaun sín sem fullgildur keppandi. Að auki vann Ragnar Bragi þrjú gull í tölti í unglingaflokki á sterkum íþróttamótum: Reykjavíkurmeistaramóti, Íþróttamóti Sörla og Íþróttamóti Harðar.

Það hefur alltaf verið haft í hávegum að taka íslenskan gæðing til kostanna. Sérstaklega þykja þeir góðir reiðmenn sem hafa frábært vald á skeiði, ásamt því að geta haldið öðrum gangtegunum til haga. Ég gef hér með Ragnari Braga Sveinssyni atkvæði mitt sem skeiðknapi ársins og efnilegasti knapi ársins. Þótt það falli utan dagskrár.

Jens Einarsson, ritstjóri H&H