sunnudagur, 18. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

"Ekki enn dottið af baki"

odinn@eidfaxi.is
13. ágúst 2014 kl. 17:00

Þolreiðarfólk í Mongólíu

Enn af Mongólíuferð Anítu

Á facebooksíðu sinni kemur eftirfarandi viðtal fram við Anítu:

Við heyrðum í Anítu áðan í gegnum gervihnattasíma og hún bað fyrir kveðjur til allra vina sinna og þakkar öllum fyrir stuðninginn. Hér er stutt viðtal sem við tókum við hana áðan en þá var hún stödd í búðum 23 en hún á enn um 200 km eftir í keppninni:

,,Þetta er búið að vera mjög erfitt en ég er alla vega heil og ekki enn dottið af baki. Þetta er gríðarleg keyrsla og ég er orðin mjög þreytt. Nú er bara markmiðið að klára keppnina og það ætla ég mér að gera. Það yrði mikill sigur því það hafa margir fallið út vegna meiðsla og veikinda. Mig er farið að dreyma um rúm, góðan mat og sturtu. Ég hef bara náð að baða mig tvisvar í ám á leiðinni og það verður yndislegt að komast í sturtu,“ segir Aníta Margrét Aradóttir í símaviðtali fyrir stundu.
Aníta komst áðan í búðir 23 og hefur lokið um 800 km í hinni löngu og erfiðu 1000 km kappreið Mongol Derby. Aníta var framarlega fyrstu sex keppnisdagana en lenti í ógöngum í gær þegar hún fór úr búðum 19 og ruglaðist á GPS tækinu.,,Þetta var bölvað klúður hjá mér. Ég fór af stað úr búðum 1 ásamt tveimur konum en hestur annarrar þeirra ofþornaðist og þær þurftu að stoppa. Keppnisskapið varð til þess að ég ætlaði að halda ein áfram en bjóst við að þær myndu ná mér því þær eru báðar mjög öflugar. Ég var allt í einu orðin villt í æðislega fallegum dal og ákvað að bjalla eftir hjálp. Hálftíma seinna kom jeppi með læknum og hjálparliði því þeir héldu að ég hefði slasast eða veikst,“ segir Aníta. Hún fékk refsingu fyrir ð villast af leið og dómarar vísuðu henni aftur í búðirnar þar sem hún ákvað að bíða eftir fleiri keppendum.
,,Þetta varð til þess að ég féll talsvert mikið aftur úr en það verður bara að hafa það. Ég ákvað að bíða eftir fleiri keppendum því ég treysti mér ekki ein út á slétturnar aftur. Ég ákvað því að vera í hópi með bresku lífvörðunum í dag. Þeir eru mjög fínir og ef Elísabet Englandsdrottning treystir þeim fyrir lífi sínu þá hlýt ég að geta gert það líka,“ segir hún.
,,Ég hef sloppið mjög vel og aldrei dottið af baki. Ég hef sem betur fer ekki lent í neinum hættum nema að víst réðst einn af möngólsku varðhundunum að hestinum mínum sem skelfdist mjög en ég náði að halda mér á baki. Ég hef ekki lent í úlfahjörðum, alla vega ekki ennþá. Það hefur samt ýmislegt gengið á hjá öðrum keppendum. Margir hafa veikst og aðir slasast enda hafa margir dottið af baki. Einni konunni var næstum því rænt af einhverjum ribböldum úti á sléttunni en hún náði að bjarga sér og kalla eftir hjálp sem barst fljótt. Einn af bresku lífvarðarliðunum féll illa af baki og slasaðist og það þurfti að senda þyrlu eftir honum. Það var talið að hann hefði hálsbrotnað en sem betur fer kom í ljós að meiðslin voru ekki svo alvarleg. Ég borðaði lítið fyrstu þrjá dagana nema harðfist sem ég hafði með mér en fór svo að borða mongóslka matinn sem mér finnst ekki góður. Ég hef grennst talsvert og er orðinn mjög þreytt. Það eru rétt um 200 km eftir og ég er staðráðin í að klára þessa kappreið,“ segir Aníta.