þriðjudagur, 22. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ekki bótaskyld fyrir að gelda rangan hest

7. október 2019 kl. 19:39

Stóðhesturinn á myndinni tengist fréttinni ekki beint þar sem hann virðist hafa öll tól undir sér, ennþá

Eigandi stóðhestsins vildi meina að starfsmenn dýralæknaþjónustunnar hefðu átt að athuga örmerki áður en þeir geltu hestinn og með því tryggja að um réttan grip væri að ræða

 

Fréttastofa RÚV greindi frá því í gær að eigandi stóðhests ætti ekki rétt á skaðabótum frá tryggingafélagi dýralæknaþjónustu sem hafði gelt rangan stóðhest. 

Málið kom upp í maí á síðasta ári. Eigandi stóðhestsins var með hann í girðingu við ónafngreindan bæ ásamt fleiri hrossum, þar á meðal öðrum stóðhesti. Eigandi þess stóðhests tók hinn stóðhestinn í misgripum og fór með hann í geldingu hjá dýralæknaþjónustu.

Eigandi gelta stóðhestsins taldi að starfsmenn dýralæknaþjónustunnar hefðu ekki farið að almennum starfsvenjum. Stóðhesturinn hefði ekki verið örmerkjalesinn fyrir geldingu og ekki hefði verið leitað staðfestingar á því að sá sem kom með hestinn væri sannarlega eigandi hans. Hann hefði orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna geldingarinnar og krafðist því bóta frá tryggingarfélagi dýralæknaþjónustunnar.

Úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum segir að starfsmenn dýralæknaþjónustunnar hafi ekki getað annað en gengið út frá því að hesturinn sem komið var með í geldingu hafi verið í eigu þess sem kom með hann. Þeim hafi ekki borið að lesa úr örmerki hestsins né gera aðrar ráðstafanir til að staðreyna eignarhald þess sem kom með hestinn.

Nefndin telur því ósannað að dýralæknaþjónustan beri ábyrgð á því tjóni sem eigandinn hafi mögulega orðið fyrir af geldingu stóðhestsins.

Fréttina má nálgast á fréttavef Rúv með því að smella á slóðina hér fyrir neðan

https://www.ruv.is/frett/ekki-botaskyld-fyrir-ad-gelda-rangan-hest