þriðjudagur, 12. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Einstakt tilfelli við erfiðar aðstæður

26. október 2013 kl. 15:24

Iben Andersen hefur vakið athygli fyrir aðferðir við frumtamningar og við að leysa vandamál með erfið og spennt hross.

Stikkorð

frumtamning  • iben andersen

Ósanngjörn umfjöllun um viðurkenndar tamningaaðferðir segja þáttakendur frumtamninganámskeiðs.

Frumtamningaaðferðir sem Iben Andersen kynnti á haustdögum liggja undir gagnrýni og í tilkynningu er varað við notkun þeirra. Matvælastofnun barst myndbandsupptaka frá sýnikennslu og segir í tilkynningunni að aðferðir sem þar sjáist séu ekki ásættanlegar útfrá sjónarmiði dýravelferðar.

Eiðfaxi ræddi við nokkra tamningamenn sem setið höfðu námskeið Ibenar Andersen. Þó skiptar skoðanir séu um aðferðirnar voru allir jákvæðir í garð tamningakonunnar dönsku. Mörgum þykir umfjöllunin því ósanngjörn.

Utanaðkomandi truflun

Atvikið sem vísað er til í tilkynningu Matvælastofnunnar átti sér stað á sýnikennslu Ibenar Andersen að loknu 5 daga námskeiði í Húnavatnssýslu. Á sýnikennsluna mættu fjöldi áhorfenda. Að sögn viðmælenda Eiðfaxa gerði mikil utanaðkomandi truflun það að verkum að hestur, sem unnið var með í hringgerði, náði ekki að einbeita sér að verkefni tamningakonunnar. Áhorfendur sátu á stólum og bekkjum í kringum hringgerðið, margir hafi verið á hreyfingu, símar að hringja og börn að leik við gerðið. Slíkt umhverfi er ekki eðlilegt við frumtamningar.

Mælir með námskeiðum

Tilfellið var því einstakt að sögn Tryggva Björnssonar tamningamanns og það varpi röngu ljósi á þær aðferðir sem kenndar voru á námskeiðinu. "Á námskeiðinu lét hún tólf hesta leggjast og í öllum tilfellum, nema þessu eina, gekk það fumlaust fyrir sig. Það gekk illa með þennan eina hest og Iben vissi það og var sár og svekkt. Aðferðinar sem hún kennir eru viðurkenndar tamningaaðferðir víða um heim. Hún er sjálf frábær og námskeiðið í heild var frábært. Allir sem sátu það virtust ánægðir. Ég mæli hiklaust með námskeiðum hjá Iben.”

Fanney Dögg Indriðadóttir, tamningakona, er á sama máli en hún sat námskeiðið. “Mér fannst námskeiðið frábært, Iben er mjög góður kennari og mikill hestamaður. Aðferðirnar eru ekki ósvipaðar hefðbundnum tamningaraðferðum, t.d. að venja við vað og annan búnað. Hún kennir nákvæmar og skýrar ábendingar sem hjálpa knapanum að kenna hestinum að vera rólegur, óhræddur og næmur og bregðast rétt við ákveðnum aðstæðum. Ég sé ekkert athugavert við þessa aðferð sé hún rétt framkvæmd.”

Iben Andersen er dönsk tamningakona sem hefur vakið athygli fyrir nýstárlegar aðferðir við frumtamningar og við að leysa vandamál með erfið og spennt hross.