laugardagur, 15. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Einn efnilegasti fimmgangarinn úr landi

Jens Einarsson
25. febrúar 2010 kl. 13:47

Tilboð sem ekki var hægt að neita

Lena Zielinski og Ernir Kristján Snorrason hafa selt stóðhestinn Dans frá Seljabrekku, sem er undan Hugin frá Haga og Dögg frá Hjaltastöðum. Dans er sjö vetra. Hann er fljúgandi gæðingur með 8,66 fyrir hæfileika í kynbótadómi, þar af 9,0 fyrir tölt, vilja og fegurð. Hann er hins vegar ekki með háan byggingardóm, miðað við þær kröfur sem gerðar eru til stóðhesta í dag, eða 7,72 í meðaleinkunn sköpulags.

Dans kynnti sig á síðasta keppnistímabili sem verulega efnilegur keppnishestur, bæði í íþrótta- og gæðingakeppni. Knapi Lena Zielinski. Þau náðu góðum árangri á Suðurlandsmóti í hestaíþróttum, Sumarhátíð á Hellu, Reykjavíkurmóti Fáks og íþróttamóti Geysis. Lena hafði hugsað sér að keppa á Dansi í Meistaradeild VÍS, bæði í slaktaumatölti og fimmgangi, en af því verður ekki.

Nýr eigandi að Dansi er Oliver Egli í Sviss, en hann á einnig Andvarasoninn Dengsa frá Selfossi, sem hann keppti á fyrir hönd Svisslendinga á HM2009. Eins og venjan er hjá hestamönnum fékkst kaupverðið ekki uppgefið. Miðað við einkunn í kynbótadómi og frammistöðu í keppni er þó líklegt að það sé í kring um 15 milljónir króna. Lena vildi ekki staðfesta þær getgátur en sagði aðeins: „Verðið hlýtur að hafa verið nokkuð gott fyrst maður gat ekki sagt nei. Ég sé mjög mikið eftir þessum hesti.“