sunnudagur, 17. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Einkennilegur hestur

12. september 2013 kl. 10:46

Hesturinn á myndinni er frá Ohio í Bandaríkjunum og fæddist með ansi undarlegan hrygg. Á myndinn er hann 9 vetra og hafði þá aðalega verið notaður sem dráttarhestur.

Það er alltaf gaman að flétta í gegn um gömul blöð og lesa sögur af horfnum gæðingum sem virðast stundum hafa búið yfir sjöunda skilningarvitinu.

Sagnir af kynjum sem áttu að búa yfir sérstökum gáfum og furðuhestum heyrast alltaf annars lagið.  Það er eitthvað spennandi við gamlar kreddur, þjóðsögur og draugsögur þar sem maður getur látið hugann reika aftur til fortíðar.

 

Hér fyrir neðan er lýsing  á ansi sérstökum hesti. Þar auglýsir gamall mýramaður í október 1940 eftir frekari upplýsingum um klárinn.

Helgi  Helgason bóndi í Vogi á Mýrum sem síðastur bjó þar, átti um nokkurt skeið ævinnar hest, sem var móbrúnn að lit með „úlfalda sköpulagi“.  Hann var hábeinóttari en aðrir hestar og hafði kryppu upp úr baki, framar en miðju, en tiltölulega minni en á úlfalda. Eftir hæð var hann miklu hryggstyttri en aðrir hestar. Hálsinn var miklu styttri en á úlfalda en þó var hvilft nokkuð djúp framan við kryppuna. Hestur þessi var vel viljugur og aðalgangur hans var gunnvakurt skeið og á því var hann fljótari en á stökki. Annan gang er ekki kunnugt um að hann hafi haft.  Þegar hesti þessum var riðið bara hann höfuðið hátt, en sökum þess hvað hálsinn var stuttur, var hægðarleikur fyrir þann sem að á honum sat, að stjórna honum, með því að halda í eyru hans, ef með hefði þurft.  Vanalegur hnakkur var notaður en með sérstöku undirlagi.

 Nú á síðustu árum hef ég verið að grafa fyrir hvaðan umræddur hestur hafi verið kynjaður, en það hefir reynzt mér um seinan því allir eru dánir sem um þetta vissu. Helst er giskað á að hesturinn hafi norðlenzkur verið og hafi séra Þórarinn Kristjánsson á meðan hann var á Prestbakka í Hrútafirði, útvegað Helga hestinn.

 Sennilegast væri að á því 15 ára skeiði sem Þórarinn er þarna, hafi hesturinn til orðið, og vafalaust hefur hann verið fluttur taminn þegar hann kom að Vogi en við líði var hann þar til 1871.Getur hafa orðið meir en tvítugur. Þá leyfi ég mér hér með að leita liðsinnis fyrst og fremst elztu núlifandi manna og kvenna í Skagafjarðar-og Húnavatnssýslum sem sjá eða heyra kunna framanritaða hestslýsingu að gefa  upplýsingar um hvort sé eða hafi verið til hestakyn, sem útaf hafi komið samlags afbrigði eða svipað að öðru leyti.

Ritað í oktober 1940.

Gamall mýramður

heimildir: timarit.is/náttúrufræðingurinn

 Ef þú býrð yfir ævintýralegri eða skemmtilegri frásögn eða sögu um hesta, ekki hika við að hafa samband við Eiðfaxa í netfangið gigja@eidfaxi.is