þriðjudagur, 15. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Einar Öder Magnússon látinn

16. febrúar 2015 kl. 13:18

Einar Öder Magnússon og Glóðafeykir frá Halakoti.

Einar var einn af okkar snjöllustu reiðmönnum og virtustu reiðkennurum Íslandshestamennskunnar.

Einar Öder Magnússon reiðkennari og hrossaræktandi í Halakoti lést mánudaginn 16. febrúar, eftir langvarandi veikindi.

Einar var einn af okkar snjöllustu reiðmönnum og virtustu reiðkennurum Íslandshestamennskunnar.  Hann var náttúrureiðmaður og hafði næman og djúpan skilning á reiðlist. Hann miðlaði þekkingu sinni í ræðu og riti, kenndi reiðmennsku um heim allan og naut mikillar virðingar hestamanna.

Auk þess að vinna stórmót og rækta verðlaunahross stýrði hann landsliði Íslands til frækinna afreka og var ötull í markaðssetningu íslenska hestsins á erlendri grundu. Hann hlaut nýverið heiðursverðlaun Landssambands hestamannafélaga fyrir ævistarf sitt í þágu íslenska hestsins.

Einar var 52 ára þegar hann lést, en hefði orðið 53 ára á morgun. Hann lætur eftir sig eiginkonu, Svanhvíti Kristjánsdóttur og fjögur börn, þau Hildi, Magnús, Hákon og Dagmar.

Eiðfaxi sendir aðstandendum og vinum Einars Öders samúðarkveðju.