laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

„Eina rétta í stöðunni“

10. júní 2010 kl. 11:18

„Eina rétta í stöðunni“

Hulda Gústafsdóttir og Hinrik Bragason hrossaræktendur á Árbakka, reka umfangsmikið fyrirtæki í hestamennskunni. Þau kenna, kaupa og selja hross og annast útflutning. Hulda sat í framkvæmdanefnd landsmóts 2010, þó reyndar hafi hún ekki setið fundinn afdrifaríka í gær þar sem hún var stödd erlendis. Eiðfaxi leitaði til Huldu vegna „Máls málanna“, frestun landsmóts.

Var þetta það eina rétta í stöðunni?
„Já, ég tel það. Nú er búið að taka pressuna sem landsmótshald setur óneitanlega, af þjálfurum, hrossaræktendum og hesteigendum. Þetta var samt mjög erfið ákvörðun og í rauninni var enginn möguleiki í stöðunni góður að því leyti að tjónið verður alltaf mikið. Reynt var að lágmarka skaðann, gera það eina rétta fyrir hrossin. Síðan skiptir miklu máli fyrir okkur að bregðast við vágesti sem þessum af ábyrgð og halda þannig ímynd okkar út á við sterkri. Það gerðum við með þessari ákvörðun, að hafa velferð og heilsu hestsins að leiðarljósi.“

Hvað með erlendu gestina sem áttu flugmiða til Íslands í sumar?
„Við hittum auðvitað margt fólk um helgina sem hafði hugsað sér að koma í sumar. Sumir þeirra voru þegar búnir að afbóka, aðrir ætla að afbóka og enn aðrir ætla að halda sig við að koma í sumar og gera eitthvað annað en að horfa á landsmót. Svo það er gott að ekki ætli allir að hætta við og vonandi skilar þetta fólk sé allt á landsmótið á næsta ári.“

Hvernig er ástandið hjá ykkur á Árbakka?

„Við erum svona að skríða upp úr þessari lægð sem hóstinn hefur sett okkur í. Við erum að byrja að þjálfa um það bil helming hrossanna aftur. Hrossin eru að jafna sig og núna erum við að fara yfir stöðuna og íhuga framhaldið, þ.e. hvaða hross verði sýnd í sumar eða síðsumars og hver fái hreinlega frí.“

Munið þið breyta starfsemi ykkar á einhvern hátt vegna þessa?
„Já, við höfum vissulega sett í annan gír og farið í verkefni sem átti að sinni eftir landsmót, eins og girðingarvinna og annað viðhald. Það er komið til okkar sumarstarfsfólk og við finnum verkefni fyrir alla. En við höfum ekki hugsað okkur að fara erlendis og hella okkur út í kennslu, við höfum frekar verið að draga úr þeim þætti síðustu árin. Við erum með marga stóðhesta hér hjá okkur sem taka á móti hryssum í sumar, svo það þarf að sinna því vel. Og pestin virðist ekki vera að skaða frjósemi þeirra, sem er auðvitað mikið hamingjuefni.
Við erum auðvitað ekkert kát með stöðuna sem er uppi á teningnum í hestaheiminum á Íslandi í dag, en maður verður bara að bíta á jaxlinn og reyna að halda áfram. Það er ekkert annað í stöðunni,“ segir Hulda að lokum.