föstudagur, 20. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

“Ég vil að sannleikurinn komi fram”

Guðrún Hulda Pálsdóttir
23. nóvember 2013 kl. 21:49

Eigandi Blysfara frá Fremri-Hálsi fékk Steven O´Grady járningamann hingað til lands til að skoða fótamein stóðhestsins.

Ingimar á Hólaborg segir að allir varnaglar hafi verið slegnir við komu járningamanns. Hlutaðeigendur eru miður sín.

“Ég vil að sannleikurinn komi fram. Ég hef ekki minni áhuga á heilbrigði hestastofnsins og allir hestamenn,” segir Ingimar Baldvinsson, eigandi sjúkra- og þjálfunarmiðstöðvarinnar að Hólaborg á Suðurlandi. Í síðustu viku var þar erlendur járningamaður sem reyndist nota ósótthreinsaða járningasvuntu og hanska.

“Steven O´Grady, dýralæknir og járningamaður, kom hingað til lands á vegum eiganda Blysfara frá Fremri-Hálsi, Daniel J. Slott. Bæði Daniel og hérlendur dýralæknir gerðu Steven grein fyrir því að hann þyrfti að koma með sótthreinsuð tæki og að hann gæti ekki komið í hestaskónum sínum eða hestafötum. Honum var jafnframt tilkynnt að hann þyrfti í raun ekki að koma með nein tæki og tól, því við gætum útvegað honum allt,” segir Ingimar en ástæða þess að Daniel fékk Steven til landsins var að skoða fótamein stóðhestsins Blysfara.

“Mér fannst athyglisvert að Steven skyldi hafa verið fenginn hingað og hringdi því í Óðinn Örn blaðamann Eiðfaxa og bauð honum að vera viðstaddur aðgerð á hestinum. Hefði mig grunað að eitthvað vítavert eða grunsamlegt ætti sér stað og ekki væri verið að fara að reglum og lögum um sóttvarnir hefði ég auðvitað ekki boðið honum að fylgjast með aðgerðinni á Blysfara.”

Ingimar segir að ljóst sé að tilmæli dýralæknis og Daniels hafa ekki komið nógu skýrt til Stevens. “Hann var með sín sótthreinsuð járningaráhöld og ekki í hestafötum, en þegar til kastana kom dró hann upp leðursvuntu og hanska sem greinilega voru notuð.”

Frétti þetta fyrst í fjölmiðlum

Degi síðar komu starfsmenn Matvælastofnunar á Hólaborg eftir ábendingu og var Steven þá á leið úr landi. “Við hringdum í hann og hann svaraði spurningum starfsmanna stofnunarinnar. Kom þá fram að 10 dagar hefðu liðið frá því hann notaði svuntuna og hanskana síðast, áður en hann beitti þeim hérlendis. Samkvæmt starfmönnum MAST er það vinnuregla að þó farið sé að lögum um sóttvarnir er miðað við að 48 tímar líði á milli þess að farið er úr skepnuhúsi hérlendis þar til farið er inn í annað erlendis. Ég er hins vegar miður mín og allir sem að þessu máli koma,” segir Ingimar.

Í tilkynningu frá Matvælastofnun, sem birtist í gær, segir að hlutaðeigandi aðilum hafi verið skrifað bréf og þeim gert grein fyrir alvarleika málsins. Ingimar segir að misfarist hafi að senda honum bréfið og hann fyrst frétt af því í símtali frá blaðamanni fréttavefsins Vísi. Yfirdýralæknir hafi síðan hringt og í framhaldi sent honum bréfið í tölvupósti seinni partinn í gær, eftir að MAST birti tilkynninguna á heimasíðu sinni. “Bæði Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir og Gunnar Þorkelsson héraðsdýralæknir hafa harmað það við mig að ég hafi frétt þetta fyrst í fjölmiðlum.”

Fram kemur í tilkynningu MAST að gerðar hafi verið ráðstafanir til að hindra útbreiðslu á mögulegu smiti. Allir hestar sem staddir eru í Hólaborg eru undir viðeigandi eftirliti, að sögn Ingimars. “En þeir hestar sem fara frá okkur næstu fjórar  vikur þurfa að gangast í gegnum læknisskoðun og fá uppáskrift hjá héraðsdýralækni,” segir Ingimar og bætir við “ég vona að þetta atviki leiði til þess að allir hestamenn vandi sig sem mest varðandi sóttvarnir til að vernda hestinn okkar.”