mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

“Ég lít á þetta sem áskorun”

6. desember 2013 kl. 17:43

Ísólfur Líndal Þórisson

Viðtal við Ísólf Líndal

Meistaradeildin hefst nú í janúar og eru liðin að taka á sig mynd. Eiðfaxi mun kynna fyrir ykkur liðin ásamt því að taka viðtöl við einhvern liðsfélagann. Fyrsta liðið sem við kynnum til sögunar er Nethestar, Spónn.is, Heimahagi en í fyrra hét liðið Spónn.is/Netvistun. 

Í ár eru það þeir Ævar Örn Guðjónsson, Leó Geir Arnarsson, Ísólfur Líndal og Guðmar Þór Pétursson sem skipa liðið en Ævar var einnig í þessu liði í fyrra. Hinir allir þrír knaparnir koma nýjir inn í deildina og gaman verður að sjá hvað þeir gera.  

Ævar hefur verið mjög sterkur í skeiðgreinunum og fimmganginum. Hann er tamningamaður og reiðkennari frá Hólaskóla. Hann rekur tamningastöð á félagssvæði Spretts. Á undanförnum árum hefur hann náð glæstum árangri á keppnisbrautinni sem og á kynbótabrautinni.

Leó Geir Arnarsson rekur tamningastöð á Kanastöðum í Landeyjum. Leó hefur átt góðu gengi að fagna bæði á keppnisbrautinni sem og á kynbótabrautinni. Hann og Krít frá Miðhjáleigu eru orðin mjög þekkt par á keppnisvellinum en þau vekja athygli hvert sem þau koma.

Ísólfur Líndal rekur tamningastöð ásamt fjölskyldu sinni á Lækjamótum. Ísólfur er menntaður reiðkennari frá Háskólanum á Hólum en hann hefur ennig kennt við Hólaskóla. Ísólfur hefur átt velgengni að fagna á keppnis- og kynbótabrautinni undanfarin ár, sigraði meðal annars B flokkinn á Fjórðungsmóti Vesturlands. Ísólfur er gæðingaknapi ársins. 

Guðmar Þór Pétursson er snúin aftur til föðurlandsins eftir langa dvöl í Bandaríkjunum. Guðmar rekur tamningastöð á Ingólfshvoli og verður því á heimavelli í vetur. Guðmar er reiðkennari og tamningamaður frá Háskólanum á Hólum

Viðtal við Ísólf Líndal

Mikla athygli hefur vakið að Ísólfur Líndal verður á meðal keppenda í Meistaradeildinni í vetur en Ísólfur býr ásamt fjölskyldu sinni á Lækjamótum í Húnaþingi vestra og því töluverð vegalengd sem þarf að ferðast fyrir hvert mót. Blaðamaður ákvað að heyra í Ísólfi

“Ég lít á þetta sem áskorun fyrir mig bæði sem bílstjóra og knapa” segir Ísólfur “Mig er lengi búið að langa taka þátt í deildinni og ákvað að slá til. Þetta er mikil áskorun og gaman verður að keppa við nýja knapa sem maður er ekki vanur að keppa á móti yfir veturinn. Svo verða þarna líka aðrir hestar og aðrir dómarar en eru oftast hér fyrir norðan.” Ísólfur mun einnig taka þátt í KS deildinni fyrir norðan en hann sigraði hana í fyrra.

Ísólfur mun verða í liði Nethesta, Spónar.is og Heimahaga ásamt þeim Ævari Erni Guðjónssyni, Leó Geir Arnarssyni og Guðmari Þór Péturssyni. “Mér líst vel á liðið. Mikill hugur er í eigendum liðsins og vilja þeir gera góða hluti svo vonandi næ ég að skila inn eitthverjum stigum fyrir liðið,” segir Ísólfur.

Aðspurður hvort þetta muni ekki vera erfitt með alla þessa keyrslu telur Ísólfur ekki. “Auðvitað verður þetta hellings aukavinna. Ég mun eflaust þurfa að vera fyrir sunnan nokkra daga fyrir hvert mót og mun þá lenda svolítið á Vigdísi að sjá um reksturinn hérna heima. Einnig verður maður að fylgjast vel með veðrinu og spila svolítið eftir því. Ég held samt að með góðu skipulagi þá muni þetta ganga vel.”

 

Ísólfur mun verða vel hestaður en meðal annars er hann með Sólbjart frá Flekkudal í þjálfun, en Sólbjartur hefur gert það gott í fimmgangi í deildinni síðustu ár. “Ég er með töluvert af góðum hestum á húsi en hverja nákvæmlega ég mun koma með er erfitt að segja eins og er. Mér finnst líklegt að ég muni taka með mér tvo til þrjá hesta fyrir hverja grein og síðan ákveða á staðnum.”

 

Það verður spennandi að sjá hvernig Ísólfi mun ganga í deildinni og óskar Eiðfaxi liði Nethesta; Spónar.is; Heimahaga góðs gengis í deildinni í vetur.