miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ég hef dansað við hesta allt mitt líf

6. september 2019 kl. 12:00

Rosemarie Þorleifsdóttir

Rósa Birna Þorvaldsdóttir ræddi við Rosemarie Brynhildi Þorleifsdóttur en grein um hana birtist í 4.tbl Eiðfaxa árið 2018

 

 

Rosemarie Brynhildur Þorleifsdóttir er einn farsælasti og vinsælasti reiðkennari landsins.  Hún hefur rekið, ásamt manni sínum Sigfúsi Guðmundssyni, landsfrægan reiðskóla í 53 ár á sveitabæ sínum, Vestra-Geldingaholti, með góðum árangri.  Þangað fékk hún til sín fjölda barna  og kenndi þeim undirstöðuatriði hestamennskunnar með góðum árangri.  Fjölmargir íslenskir hestamenn stigu sín fyrstu skref í reiðskólanum hjá Rosemarie, sem kenndi þeim samviskusamlega á flestar hliðar hestamennskunnar.  Óhætt er að fullyrða að Rosemarie hafi haft varanleg jákvæð áhrif á þróun íslenskrar reiðmennsku og reiðkennslu með ævistarfi sínu.

Heimavistar-reiðskóli

Rosemarie opnaði reiðskólann í Vestra-Geldingaholti árið 1964 og hafði hann opin á hverju sumri í 53 ár.  „Reiðskólinn er í raun ekki aflagður, ég tek enn að mér kennslu í gerðinu hérna heima.  Árið 2015 hættum við þó að taka börn hingað á heimavist og þá lauk rekstrinum í sinni upprunalegu mynd“ segir Rosemarie og heldur áfram að segja frá upphafi reiðskólans.  „Upphaflega, þegar að við keyptum jörðina, var hugmyndin að vera hér með starfsemi.  Það var minn draumur eftir að hafa verið að kenna hjá hestamannafélaginu Fáki í nokkur ár.  Ég vildi fara í sveit og reka minn eigin reiðskóla líkt og ég hafði kynnst sem ung kona í heimavist í reiðskóla í Þýskalandi.   Við keyptum jörðina og byrjuðum með heimavistina fjósinu.  Hluti af fjósbyggingunni hafði ekki verið notaður fyrir kýr og sá hluti var innréttaður sem herbergi með kojum.  Þá gátum við haft 16 börn í einu.  Við vorum svo með matsal í gamla húsinu þar sem við fjölskyldan bjuggum.  Þannig var þetta rekið þangað til að við byggðum nýja húsið, en eftir það gátum við tekið að okkur 24 börn í einu.“  Ljóst er að oft hefur verið margt um manninn og mikið fjör í Vestra-Geldingaholti yfir sumartímann.

Fór ung á vit ævintýra

Rosemarie var fædd í Reykjavík, 17. júní 1941.  Móðir hennar var Annie Chaloupek Þórðarson, frá Austurríki og faðir hennar Þorleifur Þórðarsons, ættaður úr Ólafsvík.  Foreldrar hennar höfðu áhuga á hestum og öðrum dýrum.  Annie lést þegar Rosemarie var sjö ára og þá fengu systkinin sitthvort folaldið sem að þau gátu alltaf farið til, annast og þótt vænt um.  Þorleifur hélt hesta í Reykjavík og börnin höfðu aðgang að hestum í sveit á sumrin.  Aðspurð segist Rosemarie alltaf hafa haft áhuga á hestum, enda umgekkst þá í sveit frá níu ára aldri við bústörf og naut þess að fara í útreiðartúra.  Ung ætlaði Rosemarie þó að leggja önnur störf fyrir sig, og sá til dæmis fyrir sér að vera ballet dansari, flugfreyja eða húsmæðrakennari.  En þegar að henni bauðst tækifæri til að fara til Þýskalands var hún fljót að þyggja það.  „Upphafið af mínu ævistarfi er þegar ég fór, 17 ára, að starfa á svokölluðu „Pony-hotel“ í Þýskalandi.  Það var fyrir tilstuðlan Gunnars Bjarnasonar, hrossaræktarráðunautar, sem greiddi götur Ursulu Bruns sem var þekkt hestakona og rithöfundur.  Hún hafði eignast íslenska hesta og heillast af honum.  Hún skrifaði barnabækur sem fjölluðu um hestinn. Hún kom hingað til Íslands í leit af íslenskum hestum til kaups, því hún vildi fara að kynna hann í heimalandi sínu og Evrópu, til að fleiri eignuðust hann og gætu notið.  Þannig kynntist ég henni.  Hún bauð mér út að koma að vinna við þessa íslensku hesta sem höfðu verið fluttir út. Ég þáði það og var í heilt ár í Bad Godesberg, hjá Bonn, að starfa á þessu „Pony-hotel.  Þangað gat fólk komið og keypt hesta, farið á bak á íslenskum hesti og fengið kennslu hjá mér.  Ég hafði fína aðstöðu, gerði og hringvöll og kenndi á íslenskan máta.  Þessi starfsemi vakti athygli og oft komu reiðmenn af stórum hestum til að fá sér hressingu og horfa á íslensku hestana.  Þeim fannst ekki mikið til þeirra koma, þeir væru smáhestar og þeir töldu að það væri ekki mikill vandi að meðhöndla þá og ríða þeim.  Ég bauð því einum þeirra á bak á einum piprum og sagði honum að hesturinn byggi yfir frábæru tölti, væri góður en viðkvæmur og að hann þyrfti að fara varlega.  Hann gerði lítið úr þessu og fór á bak eins og á stóran hest.  Sá íslenski var ekki sáttur og skutlaði honum af um leið og hann fór í hnakkinn.  Ég sagði honum að bera virðingu fyrir hestinum og gera eins og átti að gera við vikvæman hest og þá gekk það upp.  Hann prófaði tölt og fannst alveg frábært að hesturinn væri svona næmur þó að hann væri lítill.  Ég kynntist þessum stórhesta-reiðmönnum og þeir buðu mér að koma á námskeið í reiðhöll sem þeir áttu. Ég fór og var alveg eins og skopparakringla á þessum stóru hestum því að brokkið er svo gróft og mikið.  Þeir kenndu mér hvernig maður ætti að sitja og ég heillaðist svo mikið af þessari reiðmennsku að ég fór á alvöru reiðskóla eftir það.  Þar var ég á heimavist í reiðskólanum og var í rúmlega hálft ár.  Þá sá ég mun á kennslunni þar og þeirri sem að ég hafði kynnst áður.  Mér var ekki bara sagt hvað ég ætti að gera, heldur af hverju og hverju það myndi skila mér.  Ég fékk að vita alla kenninguna, alveg eins og er kennslan er orðin hér í dag.  Mér fannst þetta svo stórkostlegt námsefni, þannig að ég var áfram og tók það sem kallað er bronsað reiðmerki.  Þessu var skipt í brons, silfur og gull, og brons er grunnurinn.  Ég var svo að vinna svolítið á reiðskólanum eftir að ég tók prófið, en þeir hvöttu mig til að fara heim og kenna þetta hér.  Ég gæti þá alltaf komið aftur til að bæta við mig.  Ég fór aldrei aftur því að þetta dugði mér vel í allri minni starfsemi.  Ég notaðist við allar þessar reiðleiðir, klassíska reiðmennsku og hindrunarstökk.  Ég ætlaði mér alltaf að fara út aftur og verða hindrunarstökksreiðmaður- en það var bara svo gaman að koma heim og ég var alltaf á fullu að kenna svo að það var aldrei neitt úr því.“  Það er merkilegt að hlusta á Rosemarie segja frá ævintýrum sínum í Þýskalandi.  Hún hefur greinilega verið mjög framsækin ung kona sem var óhrædd við að feta ótroðnar slóðir.  Eftir að hafa dvöl hennar við reiðskólann lauk hóf hún vinnu hjá vinafólki föður síns.  „Vinafólk pabba áttu stórt geðsjúkrahús, eins og voru rekin eftir stríð í Þýskalandi.  Þau fluttu út íslenska hesta sem voru notaðir í skógarvinnu, til að draga trjáboli úr skóginum svo að hægt væri að nýta þá.  Þau voru frumkvöðlar í því að hjálpa andlega veiku fólki að vinna.  Þegar að ég var þar í vinnu sótti ég námskeið í Hannover þar sem að ég lærði um æfingar á hlaupandi hesti.“   Eftir að hafa starfað á geðsjúkrahúsinu hélt Rosemarie heim til Íslands, árið 1960, þá rétt að verða 20 ára.  En hún hafði þegar viðað að sér fjölbreyttri þekkingu sem átti eftir að koma sér vel við kennslu hér á landi.

Ástríða fyrir kennslu

Einhverjir höfðu vitneskju af ævintýradvöl Rosemarie.  Þegar að hún kom heim beið til að mynda formaður Fáks eftir henni og vildi að hún kenndi það sem að hún hefði lært.  „Ég byrjaði að kenna fólki um leið og ég kom heim.  Það var lítil aðstaða, og ég þurfti að biðja um gerði og alla kennsluaðstöðu.  Þetta var mjög fjarlægt öllu sem Íslendingar áttu að venjast, en Fáks-menn voru frábærir og gerðu allt sem að ég bað um.  Fyrsta gerðið var á milli hesthúsanna sem voru við kappreiðavöllinn við Elliðaár.  Það var reiðvöllur og stórt gerði.  Ég byrjaði að kenna þarna grunn reiðleiðirnar eins og eru notaðar í hlýðniprógrammi.  Ég var alveg endalaust í þannig kennslu.  Fólk skildi að þetta var einhver raunveruleiki og þeir voru allir af vilja gerðir til að bæta aðstöðuna.  Þegar að ég hugsa il baka þá sé ég hvað þetta var svo frumstætt þegar að ég byrjaði.   En mér fannst allt sem hægt var að gera dásamlegt, og gaman að geta byrjað.  Ég ákvað að kenna reiðmennskuna alveg frá grunni, alveg frá því að sækja hestinn, beisla og leggja á og þar til komið var í hnakkinn, eins og ég gerði svo síðar á reiðskólanum.“  Verkefni Rosemarie vakti gríðarlega athygli strax á fyrstu árunum.  Til að mynda kom viðtal við hana í Morgunblaðinu í tengslum við kappreiðar Fáks árið í maí árið 1961.  Þar kom hún fram ásamt fimm nemendum sínum þar sem að þær sýndu æfingar á hlaupandi hesti.  Nemendurnir voru strax gríðarlega ánægðir með nýja námsefnið og frá upphafi var mikill áhugi fyrir áframhaldandi námi.  Eins og fram hefur komið fluttist Rosemarie svo austur í Vestra-Geldingaholt árið 1964 og hóf þar starfsemi eins og henni hafði alltaf dreymt um.  Ljóst er að ástríða hennar fyrir kennslunni og viðfangsefnum sínum var gríðarlega mikil, og því hafa íslenskir reiðmenn notið góðs af.  „Ég var alltaf staðráðin í því að þetta yrði að vera alvöru og mitt.  Öll þessi 53 ár sem að reiðskólinn var rekinn féll aldrei úr ár.  Það var stanslaus kennsla.“

Margt um manninn

Þegar að mest var voru 24 börn í reiðskólanum í senn.  Þar störfuðu einnig manneskjur sem aðstoðuðu Rosemarie við framkvæmd reiðskólans.  „Það var oft mjög líflegt hérna.  Þetta var samt svo skipulagt og virkilega spennandi.  Ég var með fullt af starfsfólki á mínum snærum.  Ég var með ráðskonu, en það gekk nú oft á ýmsu við að halda ráðskonu úti í sveit“ segir Rosemarie og hlær við.  „Seinna fékk ég til mín stúlkur sem voru að læra á húsmæðraskólanum á Laugavatni.  Ég gat eiginlega bara valið þar út einhverjar sem vildu vera í sveit.  Það var alltaf mikil ásókn í að vinna við reiðskólan, en ég hafði bæði gamla nemendur úr reiðskólanum og erlent fólk.  Svo voru það börnin okkar.  Þau voru öll alin  upp við það að hjálpa til við þetta og vinna með mér.  Þannig að ég var mjög heppin með það.  Síðust árin var urðu kröfur starfsfólksins aðrar, en það var enginn vandi að fá fólk til vinnu.“  Þó að Rosemarie hafi verið andlit reiðskólans naut hún stuðnings og dyggrar aðstoðar Sigfúsar, eiginmanns síns.  „Sigfús var meira eins og bóndi hér, enda voru við með búskap hér jöfnum höndum.  Hann járnaði alla hestana á bænum og var að temja.   Hann heyjaði yfir sumarið, en var alltaf til taks þegar þurfti aðstoð við skólan.  Hann gaf sér alltaf tíma í það.“  Líklega hefur það sannast í Vestra-Geldingaholti eins og víðar, að margar hendur vinna létt verk. 

Í mörg horn að líta

Meðfram vertíðinni sem að reiðskólinn sannarlega var, var bóndabærinn rekinn.  Þar voru kýr, kindur, svín og hestar.  Á veturnar tóku þau að sér hross í tamningu og tömdu sín eigin.  „Ég skil ekkert hvernig við gátum þetta allt.  Við vorum að jafnaði með 4-5 aðkomuhross á húsi og nýttum veturna í  að temja og vertíðina.  Reiðskólinn strax á vorin þegar að skólarnir hættu, það var um það bil 25. maí, ef að hægt var.  Svo var kennt alveg þangað til að skólarnir byrjuðu á haustin.  Við tókum okkur reyndar alltaf frí ef að það var Landsmót og þvílíkir viðburður.   Við pössuðum okkur að ganga ekki alveg frá okkur í þessu.  Við vildum líka leyfa krökkunum að njóta þess að keppa og fara með þeim á mót.“  Bindingin yfir rekstri sem þessum er mikil og krefst góðrar skipulagningar.  Hjónin virðast hafa haft gott lag á skipulagningu og nýtt allt árið til þess að sumrin kæmu sem best út.  Einn af þeirra stóru styrkleikum var að geta unnið sjálf í þeim hrossum sem að þau nýttu í skólann, en þannig þekktu þau vel til og hafa getað valið hesta og nemendur vel saman.  „Til að byrja með vorum við með aðkomuhesta.  Sigfús ferðaðist um landið ásamt Páli á Kröggólfsstöðum (Palla í Forna Hvammi) og þeir voru að kaupa hesta fyrir Samband íslenskra samvinnufélaga [SÍS].  Stundum keypti Sigfús þá þæga hesta sem hentuðu í skólann.  Það var þó mjög fljótlega sem að við gátum rekið skólann á okkar eigin ræktun.  Við byrjuðum strax að rækta okkar eigin hross þegar að við fluttum austur og notuðum mikið hross út af Herði frá Kolkuós.  Keyptum folöld undan honum úr ræktun Páls Sigurðssonar og svo byrjuðum við áfram að rækta.  Við vingsuðum alla þægu hestana úr og við vorum alveg sjálfbær með það.“

Framkvæmd námsins

Aðsóknin í reiðnám hjá Rosemarie var strax mjög mikil.  Jafnt í Fák sem og í Vestra-Geldingaholti og komust færri að en vildu.  „Það var svo mikil ásókn og okkur fannst svo leiðinlegt að neita börnum um kennslu.  Við ætluðum bara að vera með hámark 10 í hóp.  En leyfilegur fjöldi í kennslu úti í reiðgerði eru 12 manns, og ég ákvað að hámarka mig við það.  Ég hafði það sem reglu fyrstu 10 árin.  Eftir því sem að færni nemenda jókst var þeim skipt niður í fleiri hópa.“  Reiðskólinn þróaðist og framkvæmd námskeiðanna tók breytingum efir því sem að árin liðu.  „Til að byrja með voru þetta hálfs mánaða námskeið.  Svo stytti ég þau í 12 daga námskeið og það var nokkuð lengi rekið þannig.  Fyrst 14 dagar, svo 12, 10 og 7.  Svo endaði það þannig að við vorum með fimm daga námskeið, frá mánudegi til föstudags.  Þá var námið keyrt áfram, frá morgni og fram á kvöld.  Það komust 12-14 nemendur að í einu og þá voru færri í hópum.  Ég þróaði þetta bara eftir hversu hestfær þau voru.“  Öll kennslan í reiðskólanum fór fram út í gerði.  „Gerðið okkar var byggt upp með ágætu undirlagi.  Þegar að sigið hafði úr gerðinu að vori var undirlagið mjög gott, þannig að við gátum unnið í hvaða veðri sem var.  Við klæddum okkur eftir veðri og það var bara harkan sex.  Kennslan frestaðist bara ef að það var hávaðarok, þá kannski frestaðist tíminn.  En það var ótrúlegt hvað krakkarnir vildu alls ekki vera heima heldur frekar fara af stað.“  Rosemarie segir frá því að þau hafi lagt mikið upp úr því að hafa gerðið sitt með góðu undirlagi svo að það nýttist vel.  Það var þó alls ekki alls staðar þannig.  „Þegar að ég var að kenna hérna um sveitirnar á vorin, þá stóð ég stundum föst í drullu upp á miðja kálfa að reyna að kenna.  Það var skelfilegt, en það átti að halda námskeið og það varð að vera þessa daga. Allt lét maður sig hafa.  Ég hugsa oft til þess ef að ég væri 25 ára í dag að hafa þessa aðstöðu sem býðst í dag til að kenna, það er bara draumur.  Stundum var ég að kenna bara á afleggjurum heim að bæjum, en allt síaðist þetta inn hjá nemendunum sem sóttu námskeiðin.“

Stíf dagskrá og gott skipulag

Rosemarie hafði mikinn metnað fyrir því að mennta nemendur sína vel og kenna þeim mikið.  Dagarnir voru því vel skipulagðir frá morgni og fram á kvöld.  „Venjulegur dagur í reiðskólanum samanstóð af reiðkennslu í gerði og æfingum á hlaupandi hesti.  Æfingar á hlaupandi hesti auka jafnvægi knapans, en gott jafnvægi er grunnurinn að góðum knapa að mínu mati.  Knapinn lærir að halda sér berbakt á hestinum og gera ýmsar æfingar.  Við fórum oft í útreiðatúra í náttúrunni, en það var jafn nauðsynlegur þáttur í reiðskólanum og allt hitt.  Þá vorum við að kenna þeim að ríða upp og niður brekku og yfir á og yfir hindrun eða eitthvað úti í náttúrunni.  Ég tel að vitneskjan sem ég hafi gefið af mér hafi síast inn og nemendurnir virðast muna námsefnið alla tíð.  Enda var kjörorð reiðskólans: „lengi býr að fyrstu gerð“.  Til að byrja með bauð ég einnig upp á hindrunarstökk, en vægi þess minnkaði eftir því sem að námskeiðin styttust. Ég tók einnig saman efni í kladda sem að ég bjó til og notaði í bóklegu kennslunni. Hver einasti nemandi fékk hann og fór með heim.  Ég veit að knapamerkið er mikið unnið uppúr formúlunni minni.  Þær höfðu samband við mig Helga Thoroddsen og Herdís Reynisdóttir og það var allt af hinu góða.  Í allri minni kennslu lagði ég alltaf áherslu á að vera ekki að búa til neitt nýtt, heldur styðjast við klassískar hefðir og reiðleiðir.“  Metnaðurinn og áhuginn skín enn úr augum Rosemarie þegar að hún segir frá uppbyggingu námsins.  Allt virðist hafa verið vel skipulagt og úthugsað.  „Við fórum aldrei með nemendurna út fyrir gerðið fyrr en þau voru búin að læra jafnvægið og mismunandi ásetur.  Ég get sagt það í dag að í þau 53 ár sem að reiðskólinn var rekinn hér og kom aldrei sjúkrabíll að sækja barn.  Það voru engin beinbrot, þó að margir dyttu af baki.  Ég þorði ekki að segja þetta fyrr en að við hættum með reiðskólann.  Það voru að vísu einu sinni tveir krakkar sem hlupu saman úti í gerði og þá viðbeinsbrotnaði ein.  Guð og lukkan var með okkur í þessu starfi.  En svo þegar að ég datt og brotnaði þá vildi ég alls ekki sjúkrabíl, en ég hefði átt að fara í hann.  Mér fannst það bara asnalegt, af því að þetta hafði sloppið svona með reiðskólann, en allt fór vel hjá mér að lokum.“

Mikil eftirspurn og ánægja með námið

Margir hestamenn eiga góðar minningar úr Vestra-Geldingaholti um sveitina, hestinn, námið og góðan félagsskap.  Rosemarie hefur auðheyranlega náð vel til barnanna og veitt þeim mikinn innblástur.  Aðspurð segir hún eitt af stóru markmiðum reiðskólans hafa verið að sem flestir gætu iðkað nám við hann.  „Við héldum verðinu meðvitað niðri, þannig að allir gætu komið, óháð stöðu.  Í raun og veru var verðið of lágt og reiðskólinn í rauninni rekin af hugsjón“ segir hún og heldur áfram.  „Sem betur fer þótti öllum gaman og það var mikið um að börn kæmu aftur og aftur.  Mér þótti líka svo dásamlegt að margir nemenda minna héldu áfram í hestamennsku, komu fram í keppni og gerðu hestamennsku síðar að atvinnu.  Þetta voru krakkar sem að höfðu rosalegan áhuga á hestamennsku og foreldrarnir vildu að þau lærðu góðan grunn.  Ég hitti nemendur mína úti um allt í dag og það er svo dásamlegt að þetta eru vinir mínir enn í dag.  Þau koma og heilsa upp á mig og rifja upp dvölina.  Þetta eru forréttindi og ég er svo þakklát fyrir hvað þetta gekk allt saman vel.  Þó að allir læri meira og færnin aukist, þá eru taktar og grunnur til staðar og ég sé þetta í þeim enn.“  Mikill fjöldi nemenda kom í reiðskólann og reiðnám til Rosemarie.  Auðheyrt er að henni þykir vænt um hvern einasta, og hún hélt alltaf gestabækur um alla nemendur sína í gegnum árin.  „Ég held að ég hafi í heildina kennt á fimmta þúsund manns, en það er meðtalin kennsla út um allt land.  Ég þarf að finna gestabækur og telja þetta saman, mig langar mest að vita hvað komu nákvæmlega margir á reiðskólann hér.“

Agi og persónuleg kennsla

„Fyrst var svolítið um að reiðskólinn væri notaður eins og sumarbúðir, eða eins og geymslustaður fyrir foreldra sem vantaði pössun.  En þessir nemendur vingsuðust strax út og því að þeir pössuðu ekki inn í kerfið hjá mér.  Ég passaði mig alltaf á því að láta þau börn ganga fyrir sem virkilega vildu koma og læra á hest.  Ég vildi að þau lærðu og ég gerði kröfur strax.  Það var þó enginn nemandi sem gafst upp eða fór. Þetta var mjög harður skóli, en hann skilaði árangri.“  Rosemarie þótti strangur en jafnframt góður kennari, en reynslumeiri börnin hvísluðu að nýliðunum: „hún er ströng, en hún er góð“.  Hún lagði mikið upp úr því að hver og einn lærði grunninn vel.  Hún raðaði í hópa eftir getu til þess að hver og einn fengi sem mest út úr náminu.  „Ég liki því oft við það þegar að einstaklingur er að læra á píanó, þá þarf að leyfa hverjum og einum að njóta sín virkilega eftir því hvað hann lærir hratt.  Ég vil meina að ég hafi lagt upp úr því alla tíð í reiðskólanum okkar að hafa mikinn aga.  Ég vildi að þau lærðu verkefnin nákvæmlega og umgengni við hestinn og að þau bæru virðingu fyrir honum.  Það er ekki sama hvernig þú beislar, leggur á og gengur að hestinum.  Ég byrjaði alltaf á öllu þessu ferli um leið og þau komu, vegna þess að ég veit að allt þetta skiptir svo miklu máli.“

Myndi ganga enn í dag

Aðspurð segir Rosemarie að rekstur reiðskóla eins og þess sem að hún rak myndi einnig ganga í dag.  „Ég myndi halda að það væri hægt ef að það væri 5 daga tarnir, frá mánudegi til föstudags.  Það yrði að taka daginn snemma og skipuleggja vel.  Svoleiðis námskeið gengu mjög vel hér og við fáum enn fyrirspurnir um þannig námskeið.  Ég vil ekki segja að það sé erfiðara að vera með krakka í dag en þá.  Það er öðruvísi því að þau eru meira mötuð frá barnæsku og þyrftu að læra að vera sjálfstæðari, þau eru samt öll jafn dásamleg.  Þau geta vel verið undir sömu pressunni að vera á reiðskólanum og börn áður fyrr.  Mörg áttu erfitt með að aðlagast til að byrja með, en vildu svo ekki fara.  Það var mikil sálfræði fólgin í því að hjálpa þeim að sigrast á við hræðslu og heimþrá.“  Reiðskólar sem bjóða upp á vikulöng námskeið eru reknir víða um land á sumrin nú til dags, þó flestir á höfuðborgarsvæðinu.  Þeir eru fæstir með heimavist.  Námið er vinsælt og greinilegt að hugmynd Rosemarie af rekstri reiðskóla lifir góðu lífi enn.

Brennur enn fyrir kennsluna

Rosemarie er fædd árið 1941 og er því 77 ára á þessu ári.  Það er nóg að gera hjá henni og hún sinnir ýmsum verkefnum.  „Mitt daglega líf er að ég er orðin eldri borgari og er að reyna að njóta lífsins.  Ég fer á hestbak, en er samt varfærnari eftir að ég lenti í slysinu.  Við hjónin erum að leika okkur að því að temja frá jörðinni.  Mér finnst gaman að fara með trippi inn í hlöðu, alveg óbandvant og dansa við þau.  Ég legg ekki lengur hnakk á bak í fyrsta sinn, en ég hef unun af því að fikta með þau og venja þau við þangað til að að því kæmi.  Við höfum alveg ágæta aðstöðu hér í hlöðunni.  Svo bý ég hér í sveitinni með álfum, fuglum og englum.  Ég kenni jóga, fimm kennslustundir á viku og nýt þess að vera innan um dýrin mín stór og smá.“  Eldhuginn Rosemarie brennur enn fyrir kennsluna og hefur stóra drauma fyrir íslenska hesta- og reiðmennsku.  „Ég get alveg hugsað mér að koma að kennslu og stuðla að því að rifja upp hvernig kennslunni var háttað.  Ég myndi ekki vilja standa alveg í því, en þróa þetta áfram á þeirri braut sem reiðskólinn var hjá mér.  Ég myndi vilja kenna einhverjum hvernig á að kenna æfingar á hlaupandi hesti, hindrunarstökk og hlýðni.  Það er draumur hjá mér.  Það er komið inn í umræðuna, að ég kenni kennurum að kenna, það væri draumastaða fyrir mig. Það er ekkert fallegra en að sjá barn, ungling og fullorðinn í fallegu samspili og í fallegri ásetu á hestinum sínum, það eru mínar ær og kýr.“ 
Rosemarie hefur mikinn metnað fyrir því að bæta ásetu og reiðmennsku ungu kynslóðarinnar.  „Ég myndi vilja koma fimikeppni aftur á kortið.  Það er alveg synd að hún sé ekki meira við líði nú til dags.  Það er svo góð aðstaða til að framkvæma þessa keppni, og ég vildi gjarnan sjá hana blómstra.  Grunnur knapans er svo mikilvægur, það skiptir svo miklu máli að knapinn geti fylgt hestinum og hreyfingarsambandið er mikilvægt, það er hægt á íslenskum hesti alveg eins og á stórum.  Mér finnst að það þurfi að fylgja samspili knapa og hests meira eftir fyrir komandi kynslóð.  Vegna þess að ásetan skiptir svo miklu máli.“  Rosemarie talar um að börn séu mjög opin fyrir því að bæta við sig þekkingu.  Þó að verkefnin virðist of flókin fyrir börn, þá muni verklagið og hugsunarhátturinn síast inn og verða að venju hjá börnunum.  „Ég vil kenna börnunum að nýta líkamstjáningu í samskiptum við hestinn, svipað eins og ég hef séð hjá Monty Roberts.  Þau læra þetta kannski ekki fullkomlega strax, en þetta minnir þau á og þau læra hvernig hesturinn svarar.  Ég á mér draum, eftir að hafa verið mikið með krakka erlendis á Youth Cup og fleiru.  Það eru ákveðnar reglur í Youth Cup og ég myndi gjarnan vilja taka upp hér á landi, og vera á bak við þá þróun.  Það er búið að vinna þetta verkefni svo mikið fyrir FEIF, og ég held að það væri svo gaman að fá þetta tekið upp hér á landi.  Það gæti þá orðið til þess að öll börn myndu læra það sama á landsvísu.  Það væri ég ánægð með.  Ég er oft búin að hrista hausinn yfir því að það séu allir í sitthvoru horninu að finna upp hjólið í kennslu.  Mér finnst að allir ættu að vera í því sama og að þetta væri allt staðlað.“

Að lokum

Eins og fram hefur komið hefur Rosemarie komið víða við á sínum ferli og lagt grunninn að reiðkennsluhefð nútímans.  Hún brennur fyrir reiðkennslu og að koma þekkingu sinni til skila.  Það er ljóst að áhuginn fyrir ævistarfinu fer síst dvínandi og hennar eigin orð lýsa áhuganum best: „Ég hef dansað við hesta allt mitt líf og kennt börnum og fullorðnum reiðmennsku og að lesa hestinn.“