miðvikudagur, 13. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Efri Rauðilækur og Auðsholtshjáleiga

4. júlí 2014 kl. 11:22

Hrafnar frá Auðsholtshjáleigu og Þórdís Erla Gunnarsdóttir gerðu það vel í A flokknum og nældu sér í sæti í A úrslitunum.

Kynning á ræktunarbúum.

Í kvöld fer fram sýning ræktunarbúa á Landsmótinu en dagskrárliðurinn nýtur ávallt hylli meðal áhorfenda. Þar sýna valin bú afrakstur ræktunar sinnar. Búin eru af misjöfnum meið, allt frá nýjum og litlum fjölskylduræktunarbúum yfir í stórbú sem hafa verið fremst á sínu sviði í fjölda ára. Fram eftir degi munum við kynna þessi bú til leiks.

Tvö ræktunarbú fá greiðan aðgang að sýningu ræktunarbúa í kvöld en það eru verðlaunabúin Efri-Rauðilækur og Auðsholtshjáleiga.

Efri-Rauðilækur var valið keppnishestabú LH ársins 2013 og Auðsholtshjáleiga voru valin ræktunarbú BÍ í fyrra.

Efri-Rauðilækur

Baldvin Ari Guðlaugsson og fjölskylda hans hafa ræktað hross frá Efri Rauðalæk frá árinu 1990. Þær ræktunarlínur sem standa á bakvið ræktunina á Efri Rauðalæk eru gamlir og sterkir stofnar á borð við Svaðastaða-, Kolkuós- og Sauðárkrókshrossin en þessum gömlu skagfirsku hrossum var síðan blandð við eyfirska ræktun á borð við hross frá Ytra-Dalsgerði, Höskuldsstöðum, Litla-Garði og Þverá. 

Á Efri-Rauðalæk er leitast við að rækta falleg hross, með gott geðslag og hreyfinga mikil.  Hrossin þurfa ekki eingöngu að geta nýst til keppni heldur þurfa þau einnig að veita hinum almenna reiðmanni ánægju í hefðbundum útreiðum.

Auðsholtshjáleiga

Auðsholtshjáleiga er það ræktunarbú sem oftast hefur verið valið ræktunarbú ársins. En það hefur hlotið titilinn árið 1999, 2003, 2006, 2008, 2011 og 2013. Búið reka þau Gunnar Arnarson og Kristbjörg Eyvindsdóttir ásamt börnum sínum. Árið 2010 hlaut búið Landbúnaðarverðlaun Landbúnaðarráðherra, fyrst allra ræktunarbúa.

Markmið búsins er að rækta úrvalsgripi, fallega, fasmikla, rúma gæðinga með mikla útgeislun, góð gangskil, einarða framgöngu og hreina lund.