mánudagur, 16. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Dynjanda saga Dalvíkings-

3. júní 2011 kl. 11:37

Dynjanda saga Dalvíkings-

Ásta Covert birtist heiminum eins og þruma úr heiðskíru lofti er hún á HM 2009 í Sviss reið í brautina á vígalegu dillandi tölti á hesti sínum Dynjanda frá Dalvík. Leyndist það engum að þarna var athyglisvert par á ferðinni og luku þau keppni í 4. sæti í fjórgangi, 3. sæti í tölti og í 2. sæti í samanlögðum fjórgangsgreinum, aðeins 0,04 stigum á eftir heimsmeisturunum Jóhanni Skúlasyni og Hvin frá Holtsmúla. „Ég kom öllum á óvart, sjálfri mér líka,“ segir Ásta.

Í 3. tbl Eiðfaxa er viðtal við Ástu og eiginmann hennar Will Covert, þar sem þau ræða um hestahald í Kaliforníu en þar hafa þau hjónin búið undanfarin 11 ár. Og þar er Dynjandi undir góðu yfirlæti.

„Ég þjálfa hann ekkert mjög stíft, heldur einbeiti ég mér meira að því að viðhalda gleðinni og þjálfa þolið, sem er grundvöllur þess að halda þessum miklu hreyfingum á töltinu. Honum finnst líka svakalega gaman þegar ég tek hann og vin hans í hringgerði og leyfi þeim að hlaupa. Þá ýlfrar í honum af gleði,“ segir Ásta m.a. í viðtalinu.

Hún sem stefnir með Dynjanda á Heimsmeistaramótið í Austurríki í ár. „Dynjandi er betri í dag en hann var á sama tíma fyrir tveimur árum. Hann er jafnari og stöðugri og ég þekki hann líka betur.“ Það er ljóst að Ásta og Dynjandi eru líkleg til afreka í sumar.