sunnudagur, 17. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Drottningin fallin

20. ágúst 2013 kl. 17:10

Þokkabót aðstoðar við sætisæfingar

Fréttir frá Hólaskóla.

Hinn 14. ágúst sl. var drottningin í skólahestahópnum, hún Þokkabót frá Hólum, felld vegna veikinda. Hún eyddi sumrinu eins og venjulega með stóðinu í Hjaltadalnum.

Þokkabót  var fædd 1993, undan Fjölni frá Kópavogi og Þóru frá Hólum. Ferillinn sem kennsluhross hófst ´98 þegar Þorvaldur Kristjánsson frumtamdi hana í námi sínu á Hólum. Guðrún Magnúsdóttir, reiðkennari á Hólum, þjálfaði hana svo á 5.v., áður en Anton Páll Níelson tók við þjálfuninni. Hann sýndi hana seinna í kynbótadómi og keppti einnig á henni, t.d. í fjórgangi á Íslandsmóti, þar sem hún var í úrslitum.

Árið 2000 hóf hún feril sinn sem skólahestur og reyndist mögnuð í því starfi. Hún hefur kennt mörgum margt, frá að geta setið brokk og stökk í sætisæfingum til að geta riðið yfirferðartölt á Hofsafleggjaranum. Ekki síst kenndi hún mörgum auðmýkt og sanngirni. Þokkabót lét ekki valta yfir sig og lét hún greinilega í ljósi, ef henni var misboðið en var eins og ljós ef knapinn gaf réttar og sanngjarnar ábendingar.

Þokkabót var snillingur á stökki, var vandriðin á tölti, en mjög góð ef rétt var farið að, og hafa margir lært á henni listina að ríða hesti fyrst og fremst með fótum og sæti. Dugnaðurinn, úthaldið, harkan var ótrúleg þegar kom að því að standa sig í sætisæfingum, og ómögulegt er að giska á hve marga hringi hún fór eða í hve margar klukkustundir. Þokkabót  var afar vinsæl meðal nemenda, og var alltaf á toppnum á vinsældalistanum þegar nemendur völdu sér hross fyrir próf.

Hér til hliðar er mynd af Mette Mannseth og Ösp frá Hólum

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Annað merkilegt við Þokkabót er að hún á nokkra afkomendur, án þess að hafa átt folöld sjálf. Teknir voru úr henni fósturvísar. Eitt af fyrstu fósturvísafolöldunum sem fæddust á Íslandi er undan henni, Örvar frá Hólum, sem er skólahestur hjá okkur. Einnig átti hún tvíburana Ögra og Ösp frá Hólum. Ögri var frægur keppnishestur, vann t.d. Bautatöltið með Þorsteini Björnssyni, var í úrslitum á Fjórðungsmóti í B-flokki með Ísólfi Líndal og vann Ís-landsmótið á Svínavatni með Sölva Sigurðarsyni. Ösp var hæst dæmda hryssan á Íslandi 2006 og stóð efst í 6 v. flokknum á Landsmótinu, með Mette Mannseth í hnakknum.  Dóttir Aspar, Storð, var svo á Landsmóti 2011 í flokki 4 v og  árið 2012 sem 5 v.

Takk fyrir allt Þokkabót, við munum sakna þín.

Reiðkennarar og starfsmenn Háskólans á Hólum