sunnudagur, 17. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Dregur úr tíðni áverka

23. september 2014 kl. 12:18

Dregið hefur úr tíðni áverka í munni keppnihrossa frá árinu 2012.

Niðurstöður heilbrigðisskoðana frá keppnum og kynbótasýningum ársins birtar.

Skýrsla um niðurstöður heilbrigðisskoðana á keppnis- og kynbótahrossum á Landsmóti hestamanna (LM) og Íslandsmóti í hestaíþróttum (ÍM) 2014 er komin út og hefur verið birt á vefsíðu Matvælastofnunnar.

Skýrslan byggir á 1255 skoðunum á 624 hrossum sem kepptu í fimmgangsgreinum, fjórgangsgreinum, tölti (LM& ÍM),eða ungmennaflokki (LM), sem og kynbótahrossum (LM). Niðurstöðurnar sýna að greinilega hefur dregið úr tíðni áverka í munni frá árinu 2012 bæði í keppni og kynbótasýningu. Ekki var þörf á að vísa neinum hesti frá keppni en níu hrossum var vísað frá kynbótasýningum.

„Alvarlegir áverkar á kjálkabeini hafa nær horfið hjá keppnishestum og má rekja þá breytingu til þess að stangamél með tunguboga voru bönnuð, enda er sambærilega þróun ekki að finna á meðal kynbótahrossa þar sem þessi mél eru enn í notkun,“ segir í skýrslunni.

„Niðurstöðurnar sýna jákvæð áhrif af þeim fyrirbyggjandi aðgerðum sem gerðar voru. Fræðsla um munn hestsins og hættuna á áverkum virðist eiga þátt í að draga úr tíðni áverka í munnvikum og kinnum keppnis‐ og kynbótahrossa en bann við notkun á stangamélum með tunguboga er nauðsynlegt til að fyrirbyggja alvarlega áverka á kjálkabeini,“ segir þar jafnframt.

Skýrsluna má nálgast hér.

Þá bendir Mast á áður birta vísindagrein um áverka í munni íslenskra keppnishesta „Bit-related lesions in Icelandic competition horses“ hefur nú verið birt í rafrænni útgáfu í ritinu Acta Veterinaria Scandinavica. Opinn aðgangur er að greininni sem er að finna hér.