miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Dregið í dálk á sunnudagsmorgni-

30. janúar 2011 kl. 12:03

Dregið í dálk á sunnudagsmorgni-

Eiðfaxa hefur verið tíðrætt um fyrsta kvöld Meistaradeildarinnar, sem fór af stað með látum á fimmtudagskvöld. Heyra mátti á áhorfendum að þeir hafi verið orðnir langeygir eftir glæsisýningu.

Eftirvænting Ægis frá Reykjavík var orðin mikil fyrir Meistaradeildinni. “Ég var orðinn þyrstur að sjá alvöru mót. Það er mjög gaman að koma og sjá hvernig hestakost knaparnir koma með.” Ægir sagði Meistarakeppnina hafa mikla þýðingu fyrir hestamennskuna. “Eins og sést á mætingu í kvöld þá voru margir jafn þyrstir og ég, enda hafa ekki verið haldin stór mót lengi.”

Og ekki urðu áhorfendur fyrir vonbrigðum. Keppnin var stórglæsileg og skemmtileg, þótt nokkuð hafi borið á þreytumerkjum þegar líða tók á forkeppni. Enda var dagskrá kvöldsins fjórir tímar að lengd, sem þótti nokkuð langt fyrir þrönga trébekkjarsetu í Ölfushöll.

En Friðrik frá Hveragerði lét engan bilbug á sér finna, þar sem hann sat og dreypti á kaffi í hléi. Hann ætlaði að fylgjast grannt með Meistaradeildinni í allan vetur. “Mótin eru góð viðbót við aðra dagskrá á veturna, hún er góð skemmtun sem gaman er að fylgjast með.”

Sú hefð að knapar velji lög við sýningu sína í forkeppni vakti gleði undirritaðrar. Tónlistin setti persónulegan blæ á hverja sýningu. Á meðan flestir knapar völdu að sýna undir taktföstu “graðhestarokki” var Bergur Jónsson reffilegur þegar hann óð áfram á Vakari frá Ketilstöðum undir poppkónginum sönglandi “You know I´m big, I´m bad, come on, you know it.” Þá þótti plötusnúður hússins einstaklega smekkvís þegar þemalag Bleika Pardusins var sett á fóninn yfir fetsýningu í úrslitunum.

Að öllum keppendum ólöstuðum þótti mér unun að fylgjast með afslappaðri og agaðri sýningu Önnu Valdimarsdóttur og Ketils frá Vakurstöðum. Ketill virtist fullkomnlega sáttur og slakur, frýsaði á meðan sýningu stóð og var hvorki að sjá spennumerki; taglsveiflur né munngeiflur eins og greina mátti í nokkrum hærra dæmdum sýningum. Anna sat Ketil eins og jarðtengdur jógagúru hvort sem hann sveif áfram á brokki eða stökki. Kom mér því nokkuð á óvart að sýning þeirra skoraði ekki hærra en raun varð.

En sitt sýnist hverjum um dómgæslu og í lok dags þýðir lítið að deila við dómara. Ekki má gleyma þeim forréttindum áhorfandans að geta setið í stúkunni, mænt á falleg hross meðan hann sötrar kaffi og sett svo upp ábyrgðarlaus dómaragleraugu og kvabbað og nöldrað um það sem fyrir augu ber.

Miðað við frábæran hestakost og reiðmennsku voru dómararnir ekki í öfundsverðum sporum. Nema þá fyrir snúningsstólana sem þeir gátu sveiflað sér frjálslega á. Horfði ég girndaraugum á þennan sætakost þar sem ég sat aum og klemmd og komið var inn á þriðja tíma keppninnar.

Ég er því ekki frá því að hamingjuhrollur hafi farið um mig þegar þemalag fegurðarsamkeppni Íslands gjall um Ölfushöll þegar Sigurður Sigurðarsson og Loki frá Selfossi voru krýndir sigurvegarar kvöldsins.

Þá hafa margir eflaust brosað í gegnum tárin á leiðinni úr höllinni, augun glóandi eftir sýn kvöldsins, sálin ekki lengur soltin af sýningarskorti og gumparnir frelsinu fegnir eftir maraþonsetu. 

Guðrún Hulda Pálsdóttir