föstudagur, 20. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Dráttarhesturinn sem varð að stjörnu

17. nóvember 2013 kl. 10:00

Eftir að Snowman hætti að keppa var hann notaður sem fjölskylduhestur.

Snowman skrifaði sig á spjöld sögunnar með ótrúlegum hæfileika.

Á snjóþungum degi í febrúar árið 1956 var hesturinn Snowman sendur á uppboð og boðinn til sölu. Hann hafði eytt sínum fyrstu áttu árum sem dráttarhestur hjá Amish fólki í Pensilvanyu. Sá grái var rytjulegur og koldrullugur uppfyrir haus, ekki eitt tilboð barst í hestinn og að lokum var hann teymdur upp á kerru með nokkrum öðrum hestum sem ekki höfðu selst þar sem leið þeirra lá undir hnífinn.  Þá birtist maður nokkur að nafni Harry de layer sem var þjálfari í leit að reiðskólahestum. 

Eitthvað sá hann við Snowman, því hann ákvað að þyrma lífi hans og eyða heilum áttatíu dollurum í hestinn.  Snowman stóð sig með ágætum sem reiðskólahestur og stúlkurnar höfðu unun af því að kemba honum og bursta.

Svo fór þó að Snowman var seldur til nágrannabóndans.  Ekki undi hann sér vel þar því hann stökk yfir ansi margar girðingar af hinum ýmsu hæðargráðum til að komast heim til Harrys.  Eftir að hafa verið sóttur í nokkur skipti, endurtók Snowman alltaf leikinn aftur og aftur. Harry hugsaði sitt og ákvað að kaupa hestinn til baka.  

Snowman hafði nefnilega sannað stökkgetu sína með heimþrá í hjarta.  Harry hóf að þjálfa hann sem hindrunarstökkshest og komst að því að hesturinn hafði ótrúlegan hæfileika, dráttarklárinn sjálfur  flaug yfir hæstu hindranirnar eins og ekkert væri.

Á næstu tveimur árum tók Snowman hvert frægðarstökkið á fætur öðru og  skaut hreinræktuðu snobbhestunum ref fyrir rass með því að vinna fjöldan allan af mótum. 

Árið 1958 unnu þeir  félagar svo stærsta mótið sem haldið var í þessari grein í Bandaríkjunum, „The triple crown of Jumping" Snowman hlaut svo tilnefninguna hestur ársins í framhaldi af þessu.  Einnig hlaut hann meistaratitilinn „ the Champion of Madison Square Gardens Diamond Jubilee."

Árið eftir skráði hann sig á spjöld sögunnar með því að vinna „Open jumper Champion" annað árið í röð, eitthvað sem enginn hestur hafði áður afrekað.

Snowman hætti keppni árið 1962 en spilaði stórt hlutverk  sem fjölskylduhestur með börnunum átta sem Harry eignaðist með konu sinni, Snowman var felldur árið 1974 vegna veikinda þá 25 vetra. 

Nú standa yfir upptökur á heimildarmynd um Harry og Snowman.  Hér fyrir neðan má sjá stiklu úr myndinni: