þriðjudagur, 12. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Dorrit ríður í gegnum Brandenborgarhliðið

31. júlí 2013 kl. 15:16

Embættistaka forseta Íslands 1. 8. 2012

Opnunarhátið heimsmeistaramótsins verður við eitt helsta kennileiti Berlínar.

Dorrit Moussaieff mun ríða í gegnum Brandenborgarhliðið í miðborg Berlínar á opnunarathöfn heimsmeistaramóts íslenska hestsins á sunnudag.

Ólafur Ragnar Grímsson mun fylgja eiginkonu sinni en hann mun ekki, eftir því sem næst verður komist, fara um á hesti.

Hliðið fræga

Brandenborgarhliðið er eitt helsta kennileitið í Berlín og ein fárra bygginga sem stóð af sér sprengjuárasir Bandamanna í lok Síðari Heimstyrjaldarinnar. Hliðið skemmdist þó nokkuð en var endurbyggt á árunum 1956-57.

Hliðið er 26 metra hátt og 65 metra breitt. Fyrirmyndin var Propylaea, inngangahofið mikla að Akrópólishæðinni í Aþenu. Efst trónir hestaeykið Quadriga, en þar keyrir rómverska sigurgyðjan Viktoría á vagni sem dreginn er af fjórum hestum.

Tvær merkar ræður voru fluttar á tímum múrsins og kaldastríðsins vestanmegin við hliðið. 

Árið 1963 hélt John F. Kennedy ræðu þar og sagði þá hin frægu orð: „Ich bin ein Berliner“, Ég er Berlínarbúi.

Árið 1987 var Ronald Reagan á sama stað og sagði : „Mr. Gorbachev, open this gate! Mr. Gorbachev, tear down this wall!“, Gorbachev opnaðu þetta hlið, Gorbachev rífðu niður þennan vegg.

Múrinn féll svo 9. nóvember 1989.