miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Dómar í fullum gangi - myndband

3. október 2013 kl. 12:20

Hleð spilara...

Kynbótadómar sauðfjár eru í fullum gangi.

 

Sauðfjárdómartörnin er í fullum gangi og blaðamaður Eiðfaxa var viðstaddir þegar dæmt var á Hurðarbaki í Flóahrepp.

Þar á búinu var keypt nýtt fé á síðasta ári eftir að skorið var niður vegna riðu. Bændurnir á Hurðarbaki lögðu í kjölfar niðurskurðarins í byggingu nýs fjárhús.

Skiljanlega var spenna í loftinu og fróðlegt að fylgjast með dómum á þessari nýu hjörð sem keypt var af nokkrum sérvöldum bæjum í Öræfasveit.

Hér er lýsing á starfinu tekin af vef RML:

Tilgangur og markmið sauðfjárskoðunar
Ræktunarstarfið miðar að því að bæta og breyta eiginleikum með það m.a. að markmiði að framleiða verðmætari vöru, afurðarmeiri og endingarbetri gripi þannig að hjörðin skili bóndanum meiri arði. Auk þess er það hluti af ræktunarmarkmiðinu að varðveita hin ýmsu séreinkenni íslensku sauðkindarinnar.. Þetta eru allmargir eiginleikar sem við þurfum að taka tillit til svo árangur náist.. Í gegnum einstaklingsdóminn fáum við ágætar upplýsingar um nokkra þætti s.s. holdfyllingu, fitu, þunga, bollengd, ullargæði og heilbrigði (s.s. bitgallar, fótaskekkjur, eistnagallar). Stefnan er að rækta þéttavaxið og bollangt fé (langt miðað við hæð) með góða ull, bráðþroska með hæfilegu fitumagni og er listin fólgin í því að sameina þetta allt í sama gripnum. Skýrsluhaldið gefur okkur síðan upplýsingar um mæðraeiginleikana sem ekki eru mælanlegir á einstaklingnum sjálfum en mikilvægi þeirra þarf vart að tíunda, því þetta eru grundvallar eiginleikar.

Mikill árangur hefur náðst á síðustu árum í því að bæta vaxtarlag og kjötgæði. Sem dæmi má nefna hefur þykkt bakvöðva aukist um tæpa 2 mm að jafnaði á 10 ára tímabili og gerðareinkunn sláturlamba hækkað úr 7,46 í 8,58, fitan minkað en fallþungi aukist.

Því má fullyrða að í dag erum við almennt að framleiða mun betri markaðsvöru. Ásamt því að halda áfram að bæta kjötgæðin þá þarf að leggja ríka áherslu á afurðasemi ánna.Sauðfjárdómarnir ásamt öflugu skýrsluhaldi eru tæki sem bændur geta nýtt sér til að breyta fjárstofni sínum. Dæmin sýna að árangurinn getur verið mjög mikill á skömmum tíma.

Verklag við ásetning
Almennt er skynsamlegt að framkvæma lambaskoðun sem fyrst eftir að lömbin koma af sumarhögunum þannig að hópurinn sé sem samanburðarhæfastur þegar hann er metinn. Einnig í ljósi þess að það er markmiðið að lömbin séu sem næst sláturstærð þegar þau koma af fjalli. Það er í öllu falli ákaflega gagnlegt að vigta lömbin nánast beint af fjalli/úthaga til þess að átta sig á því hverju ærnar og sumarhagarnir skila í vexti. Þá er það þekkt staðreynd að bakvöðvi hrútlamba byrjar að slakna þegar líður á október mánuð og því engin ástæða að geyma það langt fram á haustið að láta stiga þá.

Þegar lömbin eru valin til skoðunar er það ágætt vinnulag að vera búinn að merkja við í bókinni hvaða lömb koma til greina sem ásetningur t.d. útfrá kynbótamati fyrir frjósemi og mjólkurlagni.

Síðan er eðlilegt að setja einhver viðmið fyrir þroska þannig að lömbin verði að standast ákveðnar kröfur um lífþunga. Sá hluti lambanna sem ekki kemst í gegnum þessa síu er þá meðhöndlaður sem sláturlömb og fá meðferð við hæfi. Hluta lambanna er væntanlega arðbærast að lóga strax og önnur að bata. Hvar þessi mörk liggja er reiknisdæmi sem er breytilegt milli búa sökum aðstæðna (óhætt er að leita til ráðunauta RML við úrlausn slíkra dæma).

Til þess að lambadómarnir skili tilætluðum tilgangi þarf að skoða ríflegan fjölda miðað við ásetning.

Framkvæmd lambaskoðunar
Flestir bændur þekkja hvernig aðstaða þarf að vera til að skoðunin gangi sem best fyrir sig. Það er a.m.k. góð lýsing, rafmagn, naglfast borð, sæti fyrir íhaldsmenn, dómara og ritara. Þegar tveir ráðunautar eru við matið (einn stigar og annar ómmælir) þá er best að til staðar séu a.m.k. þrír aðstoðarmenn auk ritara, þannig að báðir dómararnir hafi íhaldsmann og sá þriðji framvísi lömbunum.

Gott skipulag og góð aðstaða sparar tíma, léttir verkið og stuðlar að betri meðferð lamba.. Það hefur víða reynst vel að mynda nokkurskonar vinnslulínu þar sem lömbum er framvísað til ómmælingar úr mjórri rennu (t.d. sundurdráttargangi) og komast þannig að mestu hjá því að draga lömbin.

Mikilvægt er að búið sé að vigta öll lömb sem koma til skoðunar annað kostar meiri mannskap. Ef vigtin er komin inn í fjárvís þarf ekki að slá henni aftur inn þegar dómur er skráður.

Afkvæmi sæðingastöðvahrúta
Bændur eru hvattir til að láta dæma sem mest af afkvæmum sæðingastöðvahrútanna, sér í lagi undan nýrri hrútum stöðvanna. Það er mikilvægt að fá sem gleggsta mynd af afkvæmum þeirra strax og draga ekki undan gallagripi.

Að lokum
Nú styttist í göngur og réttir. Annasamur og skemmtilegur tími framundan hjá sauðfjárbændum. Lokahönd er lögð á framleiðslu ársins og grunnur lagður að framleiðslu næstu ára með tilheyrandi heilabrotum. RML hetur bændur til þess að vanda til verka á þessum lokaspretti í framleiðsluferlinum því þessum tíma, sem öðrum, fylgja ýmsar ákvörðunartökur sem hafa mikil áhrif á afkomu búsins.

Eyþór Einarsson
Ábyrgðarmaður sauðfjárræktar hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins