þriðjudagur, 22. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Doktorsverkefni um erfðafræðilegan grunn gangtegunda íslenska hestsins

1. október 2019 kl. 16:00

Heiðrún Sigurðardóttir

Viðtal við Heiðrúnu Sigurðardóttur um tilurð Doktorverkefnis hennar

Doktorsverkefni Heiðrúnar mun bera heitið Exploring the genetic regulation of ability and quality of gaits in Icelandic horses og mun í grófum dráttum miða að því að auka þekkingu á erfðafræðilegum grunni gangtegunda íslenska hestsins. Með verkefninu stefnir hún að sameiginlegri doktorsgráðu frá Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) og Landbúnaðarháskólanum í Svíþjóð (SLU), en LbhÍ verður leiðandi aðili í samstarfinu.

Að verkefninu standa ásamt Heiðrúnu, hópur framúrskarandi fræðimanna á sviði erfðafræða og búfjárræktar. Þetta eru Dr. Susanne Eriksson, dósent við SLU, Dr. Gabriella Lindgren, prófessor við SLU, Dr. Marie Rhodin, dósent við SLU, Dr. Elsa Albertsdóttir hjá Bændasamtökum Íslands og Dr. Þorvaldur Kristjánsson, ábyrgðarmaður hrossaræktar og gestalektor við LbhÍ.

Markmið verkefnisins er að veita innsýn í erfðafræðilegan grunn gangtegunda íslenska hestsins; hvaða þættir ráða eða hafa áhrif á ganghæfni og gæði gangtegunda. Í dag erum við einungis á byrjunarreit þegar kemur að því að greina erfðafræðilegan grunn magnbundinna gangeiginleika. Á sama tíma er ekkert hestakyn í heiminum sem býr yfir jafn umfangsmiklum og nákvæmum svipfarsmælingum og íslenski hesturinn. Þar gefst því stórkostlegt tækifæri til að hefjast handa við að vinda ofan af leyndardómum erfðamengis íslenska hestsins á markvissan hátt. Gagnasafn svipfarsmælinganna verður því nýtt til að hefja kortlagningu erfðamengis íslenska hestsins með þremur vandlega hönnuðum rannsóknum sem munu sameina nýjustu erfðatækni og þekkingu á ganghæfni íslenskra hrossa.

Með verkefninu má vænta aukinnar þekkingar á erfðamengi íslenska hestsins. Vísindalegar niðurstöður verða birtar í ritrýndum fræðiritum og markmiðið er að breiða út nýja þekkingu til fræðasamfélagsins, hrossaræktenda og annarra hagsmunaaðila. Til lengri tíma litið geta niðurstöður verkefnisins haft áhrif á úrvalsákvarðanir hrossaræktenda og mögulega leitt til nýrra erfðaprófa fyrir erfðavísum sem hafa marktæk áhrif á hæfileika íslenskra hrossa. Heiðrún er fædd og uppalin í Reykjavík, en rekur upphaf hestaáhugans til sumarvista hjá ömmu sinni og afa sem bjuggu á Hvassafelli undir A-Eyjafjöllum. Hún útskrifaðist með BS gráðu í hestafræðum frá LbhÍ og Háskólanum á Hólum vorið 2012, og hélt svo áfram og tók MS gráðu á búvísindasviði frá SLU sem hún kláraði vorið 2016.

Heiðrún hefur starfað sem alþjóðlegur kynbótadómari FEIF síðan 2015 og stundakennari við LbhÍ síðan 2018, ásamt því að starfa við stjórnsýslu landbúnaðarins hjá Matvælastofnun í fullu starfi síðan 2017. Hún lætur nú af störfum þar og hefur störf hjá LbhÍ við doktorsverkefnið sitt 1. nóvember nk.

Eiðfaxi tók tal af Heiðrúnu og spurði hana út í verkefnið.

„Ástæðan fyrir því að ég legg af stað í þess vegferð er sú að ég hef mikinn áhuga á að skoða nánar erfðamengi íslenska hestsins. Það er ekki sjálfsagt að hægt sé að ráðast í svona verkefni því svona viðamikil rannsókn byggir að sjálfsögðu á fjármögnun. Það sem gerir mér kleift að hefja rannsókn á erfðamengi íslenska hestsins eru styrkir frá Doktorssjóði LbhÍ og Stofnverndarsjóði íslenska hestakynsins sem ég er mjög þakklát fyrir. Verkefnið kom þannig til að ég hafði lýst yfir áhuga mínum við Þorvald Kristjánsson um að fara í doktorsnám. Hann hafði verið í samskiptum við fræðimenn í Svíþjóð og þegar þetta verkefni bauðst þurfti ég ekki að hugsa mig lengi um, því hvern dreymir ekki um að finna eins og eitt stykki skeiðgen. Markmiðið með verkefninu er að reyna að finna ráðandi erfðaþætti, eða að minnsta kosti þætti sem hafa áhrif á ganghæfni og gæði gangtegundanna. Við munum byrja á að bera saman erfðamengi hrossa með háan hæfileikadóm við hross með lágan hæfileikadóm og athuga hvort það séu svæði á erfðamenginu sem virðast hafa áhrif á í hvorn hópinn hross flokkast. Síðan munu við reyna að skoða þau svæði betur og vonandi ná að vinna okkur niður á einhverja einstaka erfðaþætti. Við munum líka reyna að byggja ofan á þá þekkingu sem nú þegar er til staðar um skeiðgenið. Við höfum t.d. séð að mörg hross sem eru arfhrein fyrir skeiðgeninu eru ekki flugvökur og á því ættu að vera einhverjar erfðafræðilegar útskýringar sem gaman væri að finna út hverjar eru, og greina þannig enn betur á milli klárhrossa og alhliðahrossa. Það er erfitt að átta sig á hvað við munum finna en verkefnið mun svolítið sveiflast eftir þeim niðurstöðum sem við fáum hverju sinni, en vonandi á endanum verðum við einhverju nær um það hvað það er í erfðamengi hrossa sem skapar afrekshross.“