miðvikudagur, 21. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Doktorspróf í fóðurfræði hesta-

8. janúar 2010 kl. 11:29

Doktorspróf í fóðurfræði hesta-

Sveinn Ragnarsson, lektor við Háskólann á Hólum, varði nýlega doktorsritgerð sína við Sænska Landbúnaðarháskólann (SLU) í Uppsölum. Helstu niðurstöður veita mikilvægar upplýsingar um fóðrun og fóðurnýtingu íslenskra hesta sem nýtast hestamönnum jafnt hér á landi sem erlendis.

Doktorsritgerð Sveins nefnist „Digestibility and Metabolism in Icelandic Horses Fed Forage-only diets“ og fjallar um fóðurnýtingu, efnaskipti og fóðurþarfir íslenskra hesta. Ritgerðin er samsett úr fjórum vísindagreinum sem taka til áhrifa sláttutíma, fóðurmagns og hestakyns á meltanleika gróffóðurs og efnaskipti í hestum.

Mikið orkugildi í snemmslegnu íslensku rúlluheyi

Meginniðurstöður rannsóknanna sýndu fram á töluvert fall í meltanlegri orku og próteini rúlluheys við seinkun sláttar. Einnig hefur aukið fóðurmagn neikvæð áhrif á meltanleikann. Athygli vakti að íslenskt rúlluhey hefur hátt orkugildi frameftir sumri og sé það snemmslegið jafnast orkugildi þess á við kjarnfóður.

Ein vísindagreinin skýrir frá niðurstöðum samanburðartilraunar sem gerð var á íslenskum og Standardbred hestum og leiddi í ljós að enginn munur var á meltingu milli hestakynjanna. Hinsvegar var munur á blóðefnum sem gæti verið tengdur kyni eða holdastigi. Metnar voru þarfir fyrir meltanlega orku og meltanlegt prótein til viðhalds hjá íslenskum hestum og reyndust þær sambærilegar við alþjóðleg viðmið fyrir hesta með litlar þarfir.

Leiðbeinendur Sveins voru Jan Erik Lindberg prófessor og Anna Jansson dósent við SLU. Andmælandi var Manfred Coenen, prófessor við dýralæknadeild Háskólans í Leipzig í Þýskalandi. Prófdómarar voru Jan Bertilsson, dósent við SLU, Patricia Harris, prófessor við Waltham Centre in Pet Nutrition í Bretlandi, Lars Ropstorff dósent við SLU, Markku Saastamoinen dósent við MTT í Finnlandi og Anne-Helene Tauson prófessor við Kaupmannahafnarháskóla.

Samstarf um fóðurrannsóknir

Rannsóknirnar voru unnar við Háskólann á Hólum og „The National Trotting School“ í Svíþjóð. Efnagreiningar voru unnar við SLU og Landbúnaðarháskóla Íslands. Rannsóknirnar voru styrktar af Framleiðnisjóði landbúnaðarins, Átaksverkefni í hestamennsku, Trioplast AB, Hästkraft AB og Lantmännen.

Sveinn Ragnarsson hefur víðtæka reynslu á sviði hestamennsku og hrossaræktar. Hann tók BS próf frá Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2001 og MS próf frá SLU árið 2004. Með doktorsnáminu hefur Sveinn unnið við rannsóknir og kennslu við hestafræðideild Háskólans á Hólum.

Maki Sveins er Hlín C.M. Jóhannesdóttir aðjúnkt við ferðamáladeild Háskólans á Hólum og börn þeirra eru Anna Sif og Vignir Nói. Foreldrar Sveins eru Guðrún J. Bachmann og Ragnar Hinriksson.