fimmtudagur, 22. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

„Dauft hljóð í mönnum" segir Halla hjá Búnaðarsambandinu

17. maí 2010 kl. 15:29

„Dauft hljóð í mönnum" segir Halla hjá Búnaðarsambandinu

Á sýninguna sem haldin verður á Sörlastöðum í Hafnarfirði í næstu viku, eru skráð 155 hross eins og er, miðað við 263 hross í fyrra. Það er þó ekki þar með sagt að þau geti öll mætt sökum kvefpestarinnar.

Halla Eygló Sveinsdóttir hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, sagði í samtali við Eiðfaxa að mótshaldarar væru allir af vilja gerðir að hliðra til fyrir sýnendur. „Bæði að afskrá hross sem ekki eru í sýningarhæfu ástandi og eins hleypa að hrossum sem hafa náð sér eftir pestina, sem og þeim sem eru bara að koma í byggingardóm. Mér finnst ekki gott hljóð í þeim sýnendum sem ég heyri í og ég veit um tamningamenn sem ætluðu að sýna mörg hross í Hafnarfirði en geta það trúlega ekki, þar sem pestin er tiltölulega nýkomin í þeirra hross. Við verðum einfaldlega að setja heilsu hrossanna í fyrsta sæti,“ segir Halla að lokum.

Það er í mörgu að snúast hjá starfsmönnum BSSL þessa dagana, enda standa þeir ásamt bændum á öskufallssvæðunum í stórræðum við að undirbúa flutning á sauðfé og útvega beitarlönd fyrir það fé annars staðar.
Þetta eru óvissutímar á margan hátt og við hljótum að spyrja okkur að því hvort hægt verði að halda landsmót á hefðbundnum tíma, þ.e. fyrstu helgina í júlí? Við treystum því að mótshaldarar fari vel yfir stöðuna, því ekki verður séð í fljótu bragði að hóstapestin sé í rénun.

En svo tekið sé upp léttara hjal, þá eru hestar eins og Kvistur frá Skagaströnd, Kraftur frá Efri-Þverá, Hlébarði, Ljóni og Vakar frá Ketilsstöðum og Víðir frá Prestsbakka skráðir á sýninguna. Þá eru ótaldar margar glæsihryssur. Vonandi verða öll hrossin spræk og tilbúin til að sýna okkur hvað í þeim býr að viku liðinni.