þriðjudagur, 20. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Dæmi um að hross fái hóstann aftur

19. júlí 2010 kl. 11:21

Dæmi um að hross fái hóstann aftur

Í Morgunblaðinu um helgina er birt eftirfarandi frétt með ráðleggingum frá Sigríði Bjönsdóttur dýralækni hrossasjúkdóma.

Dýralæknir hrossasjúkdóma ráðleggur hestamönnum að halda veikum hrossum sér til að draga úr smitálagi Ekki mynda öll hross ónæmi Lendi hross í miklu smitefni geta þau smitast aftur

Dæmi eru um að hross séu að fá smitandi hósta í annað sinn á þessu ári. Smitið getur þannig orðið viðvarandi ef menn gæta ekki að sér. Dýralæknir hrossasjúkdóma leggur áherslu á að hesteigendur haldi veikum hrossum sér og sleppi þeim ekki saman við aðra hesta, jafnvel þótt þeir hafi fengið hóstann fyrr í sumar.

»Það lítur út fyrir að ekki myndi öll hross ónæmi gegn þessari bakteríusýkingu,« segir Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma. Hún segir að ekki sé til yfirlit um það, en sterkar vísbendingar séu um að einhver hross hafi fengið sýkinguna í annað sinn. Hún segir þetta í samræmi við það sem vitað er um skyldar sýkingar erlendis, að allt að fjórðungur hrossa myndi ekki ónæmi. »Ef þau lenda í miklu smitefni getur það gerst að þau smitist aftur,« segir Sigríður.

Hóstinn smitast mest á milli hrossa við snertingu og er því mest hætta á smiti þar sem veikir hestar eru. »Við verðum öll að taka tillit til þess og reyna sem mest að draga úr smitálaginu,« segir Sigríður. Það segir hún best að gera með því að halda veikum hrossum sér og leyfa þeim að jafna sig en setja þau alls ekki saman við hrossahópa þótt þeir hafi fengið pestina í vetur eða vor. Þá segir hún að ef veikin sitji lengi í einstökum hrossum sé rétt að fá dýralækni til að meðhöndla þau.

Víða gengin yfir

Flest hross landsins hafa nú fengið þessa sýkingu. Hún er gengin yfir í þeim hrossum sem voru á húsi sl. vetur og fengu hana fyrst. Enn eru þó hross veik sem fengu sýkinguna í sumar.

Hrossahóstinn hafði alvarleg áhrif á starfsemi tengda hestum um allt land, ekki síst tamningastöðvar, útflutning og ferðaþjónustu, og hefur enn. Þannig þurfti að fresta Landsmóti hestamanna sem átti að vera í Skagafirði í lok júní og byrjun júlí. Það verður haldið á næsta ári. Þó er ýmis starfsemi hafin að nýju, meðal annars kynbótasýningar og hestaferðir og menn eru aftur farnir að geta tamið.

Smitálagi haldið í lágmarki

Spurð að því hvort hætta sé á því að hrossahóstinn verði viðvarandi í landinu, fyrst dæmi eru um að hross séu að fá hann í annað sinn á árinu, segir Sigríður: »Ég segi það ekki, en til þess að draga hraðar úr skiptir miklu máli að við höldum smitálaginu í lágmarki.«

heimild: Morgunblaðið