fimmtudagur, 17. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Dæmdi ekki keppinautinn

22. september 2011 kl. 14:32

Ágúst dæmdi hvorki sinn eigin stóðhest, né stóðhest keppinautarins á yfirlitssýningu á Sörlastöðum.

Ágúst Sigurðsson vék úr dómi

Guðmundur Viðarsson í Skálakoti segir í viðtali við Hestablaðið, sem kom út í morgun, að eftir því sem hann best viti hafi Ágúst Sigurðsson, rektor á Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og hrossabóndi í Kirkjubæ, dæmt stóðhestinn Skýr frá Skálakoti á yfirlitssýningu á Sörlastöðum í vor. Skýr er í eigu Guðmundar (80%) og Jakobs Svavars Sigurðssonar (20%). Stóðhestur í eigu Ágústar varð efstur í flokknum eftir yfirlitssýninguna.

Ágúst segir að þessi ágiskun Guðmundar sé ekki rétt, hann hafi að sjálfssögðu ekki dæmt sinn eigin stóðhest, og ekki heldur Skýr frá Skálakoti. Hann hafi vikið úr dómi og verið fyrir utan dómhúsið þegar hans hross voru í dómi, og þrjú síðustu holl í flokki 4 vetra stóðhesta.

„Ég var dómari á sýningunni í Hafnarfirði, og þar var keyrt  með tvöfalt dómaragengi í fyrri umferð,“ segir Ágúst. „Í  lok viku sátum við þrír sem valdir vorum úr hvorri dómnefnd, Víkingur Gunnarsson, Jón Vilmundarson og ég, og dæmdum yfirlitssýninguna.

Á sýningunni í Hafnarfirði komu fram fjögur hross frá Kirkjubæ, Sjóður, Fáni, Hafsteinn og Ísafold. Ég dæmdi að sjálfsögðu ekkert þeirra hvorki í fyrri né seinni umferð. Hvað önnur hross varðar þá dæmdi ég þau hross sem fyrir mína dómnefnd voru send, enda engin sérstök flokkaskipting í þeim efnum og við dómarar vitum ekkert hvaða  hross kemur næst fyrir okkar augu.

Eitt þessara hrossa frá Kirkjubæ lenti í fremstu röð í sínum flokki, fjögra vetra flokki stóðhesta, Sjóður frá Kirkjubæ. Þann hest dæmdi ég að sjálfsögðu ekki auk þess sem ég vék úr dómpalli á yfirlitssýningu eins og ávallt þegar hross mér tengd koma fram. Þá þótti mér ófært annað en víkja úr dómpalli frá og með því holli á yfirlitssýningu sem Sjóður kom fram en þá voru þrjú holl eftir og hann í einu af þeim.

Hingað til höfum við dómarar þurft að eiga það við okkar eigin samvisku hvenær við víkjum úr dómi og hvenær ekki. Ef menn hafa betri leiðbeiningar í þeim efnum þá fagna ég því að sjálfsögðu en hef annars ekkert skárra til málanna að leggja,“ segir Ágúst Sigurðsson.