miðvikudagur, 20. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Christina Lund á Íslandi í vetur

Jens Einarsson
8. janúar 2010 kl. 11:30

Mun temja og þjálfa í Austurkoti

Christina Lund, eigandi stóðhestsins Álfs frá Selfossi, verður á Íslandi í vetur. Hún ætlar að þjálfa hestinn sjálf að þessu sinni, en Erlingur Erlingsson hefur tamið hann og þjálfað fram til þessa. Stefnt er að því að sýna Álf með afkvæmum Landsmótinu á Vindheimamelum næsta sumar.

Christina er ekki ókunnug á Íslandi. Hún bjó hér á árunum 2000 – 2004 og vann við tamningar og hrossabúskap. Hún sýndi hryssuna Álfadísi frá Selfossi á LM2000 í Reykjavík og fékk að halda henni að launum. Hún valdi Orra frá Þúfu sem faðir að væntanlegu afkvæmi og út úr því skyndibrullaupi kom Álfur frá Selfossi, sem hefur verið einn vinsælasti stóðhestur landsins síðastliðin ár.

„Ég og dóttir mín munum búa á Selfossi í vetur. Ég hef leigt mér nokkrar stíur hjá þeim Páli Braga og Hugrúnu í Austurkoti og verð þar með fimm til tíu hross í vetur. Þar á meðal er Álfur. Erlingur kom með hann til mín í gær. Það var stór dagur. Mig hefur alltaf langað að þjálfa hestinn en ekki viljað taka hann út til Noregs, vegna þess hve vinsæll hann hefur verið hér á landi. Ég hlakka mikið til að þjálfa hann. Það verður líka mjög gaman ef það tekst að koma honum í fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi, en hann er auðvitað ungur og ekki sjálfgefið að það takist. En eins og er lítur það vel út,“ segir Christina.

Christina á stóra jörð í Noregi þar sem hún rekur hrossabú og kornræktarbú ásamt foreldrum sínum. Við spyrjum hana hvort hún fari með Álf með sér til Noregs næsta haust?

„Það er frekar líklegt, en þó ekki alveg ákveðið. Það er alla vega ekki búið að kaupa flugmiðann ennþá,“ segir Christina Lund að lokum.