laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Byr undir báða vængi

25. júní 2010 kl. 11:28

Margir stóðhestar ósýndir vegna pestar

  Byr frá Mykjunesi heitir stóðhestur og er flottur. Á heldur ekki langt að sækja það, undan Kjarki frá Egilsstöðum, sem á heims- og Norðurlandsmeistara í tölti að sonum. Móðir Byrs er Dögg frá Dalbæ, sem er undan Trostan frá Kjartansstöðum og Dóttlu frá Stóra-Hofi, Náttfaradóttur frá Ytra-Dalsgerði.

Dögg á sjö skráð afkvæmi, en ekkert þeirra hefur hlotið dóm nema Byr, sem fékk 8,41 fyrir sköpulagi í fyrra. Hann var ekki sýndir í hæfileikadómi þá. Til stóð að sýna hestinn í sumar, en pestin setti strik í reikninginn. Sigurður V. Matthíasson, sem hefur tamið Byr, segir að þar fari gott efni í stóðhest. Vilji og lundarfar eins og best verður á kosið og gangtegundirnar sömuleiðis.

„Það var virkilega svekkjandi að komast ekki í dóm með hestinn. Hann var kominn í mjög gott form. Það er búið að sleppa honum í hryssur núna, en það er ekki útilokað að hann verði sýndur síðsumars. Hann er mjög auðveldur reiðhestur og alltaf tilbúinn. Þarf ekki mikla þjálfun. En undaneldið gengur fyrir, folöldin undan honum eru mjög falleg,“ segir Sigurður. Ræktandi Byrs er Matthías Sigurðsson en eigandi er Selma Skúladóttir.