laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bylting í skráningu kynbótahrossa

Jens Einarsson
29. október 2009 kl. 11:22

Tímamót sem margir hafa beðið eftir

Árangur hrossa í íþrótta- og gæðingakeppni er nú skráður í WorldFeng. Upplýsingarnar eru úr SportFeng og ná aftur til 2004, eða frá því farið var að skrá mót stafrænt. Ekkert hross má taka þátt í keppni á vegum LH nema það sé grunnskráð. Þessi skráning tengir því saman kynbótastarfið og gæðinga- og íþróttakeppnina. Unnið er að því að flytja sambærileg gögn frá öllum FEIF löndunum inn í WorldFeng.

Hér er sannarlega um tímamót að ræða í skráningu upplýsinga um kynbótahross, sem margir hafa beðið eftir. Til þessa hefur í WorldFeng aðeins verið hægt að finna kynbótadóma sýndra stóðhesta og hryssna, og einstaka geldinga sem sýndir hafa verið í kynbótadómi sem afkvæmi. Þetta hefur verið til baga, vegna þess að kynbótadómar einir og sér gefa aðeins upplýsingar um kynbótadóminn sjálfan, til dæmis stóðhests og afkvæma hans, en ekki hvernig afkvæmin reynast í íþrótta- og gæðingakeppni.

Reynslan sýnir að stóðhestur getur reynst farsæll keppnishestafaðir, þótt afkæmi hans skori ekki endilega í kynbótadómi. Og nú er sem sagt hægt í WorldFeng að fletta upp á stóðhesti, kalla fram afkvæmalista hans, og þá kemur í ljós sérstakur dálkur til hægri á síðunni sem heitir “keppni”. Ef hross hefur tekið þátt í gæðinga- eða íþróttakeppni eftir að stafræn skráning hófst er merkt x í dálkinn. Með því að smella á x-ið er hægt að skoða upplýsingar um árangur hrossins. Fram koma upplýsingar um knapa, keppnisgrein, flokkur, úrslit eða forkeppni, og aðaleinkunn.