föstudagur, 22. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Búið að bjarga hrossunum úr tjörninni

23. desember 2014 kl. 13:43

Hestamannafélagið Sóti

Fréttatilkynning frá hestamannafélaginu Sóta.

"Með samhentu átaki Sótafélaga, Björgunarsveitarinnar í Hafnarfirði, Slökkviliðsins og starfsmönnum Reykjavík Helicopters tókst að bjarga hræjum þeirra hrossa sem drukknuðu í Bessastaðastjörn. Þau voru sett á vörubíl og farið var með þau til urðunar í Álfsnesi. Fyrir hönd stjórnar Sóta vil ég þakka öllum þeim aðilum sem komu að þessari aðgerð kærlega fyrir óeigingjarnt og fórnfúst starf. Aðgerðin var í fullu samráði við lögreglu og slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins og farið var eftir öryggisreglum.

Ekki er ljóst hvað olli því að hrossin fóru út á ísinn með þessum hræðilegu afleiðingum en svona atburðir hafa ekki átt sér stað áður hér á nesinu svo vitað sé til. Að gefnu tilefni vil ég koma því á framfæri að þau 37 hross sem voru tekin á hús heil á húfi eftir smölun á Bessastaðanesinu síðastliðinn laugardag eru í mjög góðu standi og vel haldin. Nóg var af beit fyrir hrossin á Bessastaðanesi og hafa þau gott náttúrlegt skjól af Skansinum á beitilandinu.

Samúðarkveðjur sendum við öllum þeim sem misstu sín hross í þessu hræðilega slysi."

Fyrir hönd stjórnar Sóta
Jóhann Þór Kolbeins
Formaður