sunnudagur, 18. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Brokkvandamál í A-flokks úrslitum - vangaveltur

4. júlí 2011 kl. 16:00

Brokkvandamál í A-flokks úrslitum - vangaveltur

Eins og oft áður á Landsmótum lentu knapar sem riðu A úrslit í A-flokki gæðinga í basli er sýna skyldi brokk. Sumir hestanna vildu heldur tölta eða þá bara stökkva heldur en að grípa sitt annars ágæta brokk...

Fyrir knöpunum var þetta eðlilegt vandamál í kjölfar þess langa hlés sem verður á sýningu hestanna á meðan að einkunnir fyrir tölt eru kynntar. Við hléið missa hestarnir einbeitinguna sem þarf til þess að þeir séu tilbúnir til að grípa brokkið. Síðan versnaði ástandið er stjórnanda datt í hug eftir að knapar voru búnir að berjast við brokkið upp á vinstri hönd að stoppa þá aftur áður en skipt yrði um hðnd, til þess að fara nú yfir stöðuna, fyrst á Íslensku og svo á Ensku. Þessi ráðstöfun tryggði það að sama vandamál varð uppi er sýna átti brokk á hægri hönd.
Það er mikið rætt um menntun dómara og að þeir þurfi að vera vel að sér í fræðunum. Ég vil nú ræða um nauðsyn þess að stjórnendur keppni á mótum þurfa einnig að vera vel að sér í fræðunum og þekkja hvernig hestar bregðast við hinum ýmsu aðstæðum.
 „Hestvæn“ keppni á ekki bara við það að hestarnir séu ekki gerðir þreyttir, heldur einnig við það að verkefnum sé hagað þannig að þau séu þeim eins auðveld og mögulegt er.
Einn ágætur maður, mikill reynslubolti stakk uppá eftirfarandi er þetta vandamál var rætt eftir Landsmótsslit á sunnudag:
„Úrslitum í A-flokki ætti að haga þannig að fyrst er riðið á vinstri hönd, 1,5 hringur á tölti og í beinu framhaldi af því hestunum skipt yfir á brokk og það sýnt 1,5 hring. Að því loknu er hestunum snúið upp á hægri hönd og gefið andartak til hvíldar. Síðan er það ama gert aftur, það er 1,5 hringur á tölti og síðan 1,5 hringur á brokki. Að þessu loknu  eru kynntar einkunnir fyrir tölt og brokk á meðan knapar ríða út á skeiðbrautina. Þetta fyrirkomulag myndi án efa tryggja minni vandamál varðandi sýningu brokks og álagið yrði engum vel undirbúnum hesti ofraun, þ.e. 1,8 km með stuttri pásu.

Trausti Þór Guðmundsson