sunnudagur, 17. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Brokkkórinn á leið til Berlínar

1. ágúst 2013 kl. 20:12

Brokkkórinn

Í Berlín mun kórinn syngja gömul og góð ættjarðarlög, rómantískar ballöður og þekkt hestamannalög með léttu popp ívafi.

Brokkkórinn er blandaður kór hressra hestamanna sem hefur starfað síðan 2002. Stjórnandi kórsins er enginn annar en Magnús Kjartansson tónlistarmaður, lagahöfundur, stórpoppari og hestamaður. Nú leggur kórinn land undir fót og stefnir á Heimsleika íslenska hestsins í Berlín sem hefjast 4. ágúst n.k.

Þetta er í fyrsta sinn sem kórinn leggur í slíkt stórverkefni og ríkir mikil spenna og eftirvænting í hópnum sem telur 28 manns. Undirbúningur við verkefnið hefur staðað yfir í rúmt ár og mikil vinna liggur að baki við lagaval, æfingar, fjáröflun og skipulag. Kórfélagar tóku hressilega á því við fjáröflun og stærsta verkefnið því tengt var útgáfa happadagatals sem tókst gríðarlega vel og gerði mikla lukku.

Í Berlín mun kórinn syngja gömul og góð ættjarðarlög, rómantískar ballöður og þekkt hestamannalög með léttu popp ívafi. Kórinn mun einnig stíga á stokk með Helga Björns og reiðmönnum vindanna. Heimsmeistaramótið stendur yfir í viku og mun kórinn koma fram á mótssvæðinu flesta dagana ásamt því að syngja við ýmsa viðburði í tengslum við mótið.