miðvikudagur, 13. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Brokkarar á beinni línu

1. febrúar 2011 kl. 13:14

Penni frá Glæsibæ og Sigurbjörn Bárðarson.

Tveir synir Parkers í fjórgangi

Tveir synir Parkers frá Sólheimum voru í A úrslitum í fjórgangi Meistaradeildar Suðurlands í hestaíþróttum: Sigur frá Hólabaki (8,37), hestur Hinriks Bragasonar, og Penni frá Glæsibæ (8,26), hestur Sigurbjörns Bárðarsonar. Báðir stóðhestar, klárhestar.

Parker er undan Hervari frá Sauðárkróki og Pentu frá Vatnsleysu, sem er undan Hersi frá Stóra-Hofi, Stjarnasyni frá Bjóluhjáleigu. Hann var taminn og sýndur af Tryggva Björnssyni á Blönduósi og er nú í eigu Sigrúnar Brynjarsdóttur í Ameríku. Parker er klárhestur með 9,5 fyrir brokk, og 9,0 fyrir tölt, stökk, vilja, fegurð, hægt tölt og hægt stökk. Upplagður fjórgangari.

Sigur er þekktur keppnishestur hjá Hans Kjerúlf á Reyðarfirði og er skráður í eigu hans og Þorsteins Kristjánssonar, útgerðarmanns á Eskifirði. Hann er nú í þjálfun hjá Hinriki Bragasyni á Árbakka. Penni var hins vegar að þreyta sína fyrstu keppni og upphafið lofar góðu. Strax kominn á beina línu. Glæsilegur gripur, tinnusvartur með hausinn frá móðurafa sínum, Sörla frá Sauðárkróki. Hann er í eigu Stefáns Friðrikssonar í Glæsibæ og er í þjálfun hjá Sigurbirni.