miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Breytingar á reglum

11. mars 2016 kl. 15:24

.

SAMANTEKT FRÁ FEIF ÞINGI - SPORT

FEIF þingið er haldið á hverju ári í febrúar og að þessu sinni var þingið haldi í Haarlem í Hollandi, dagana 5. - 6. febrúar. Hulda Gústafsdóttir er fullrúi Íslands í sportnefnd FEIF og tók saman helstu atriði sportfundarins á þinginu. 

Samantekt af FEIF þingi í Haarlem í febrúar 2016 – Sport

Á aðalfundinum voru nokkrar tillögur sem samþykktar voru á fundinum 2015 teknar fyrir sem varða íþróttakeppni.

Þar var samþykkt:

 1. Að stytta hófa um 0,5cm í íþróttakeppni.  Þannig að hestar minni en 145cm mega hafa 9,0 cm langa hófa og hestar 145cm eða stærri 9,5cm langa hófa.
 2. FEIF samþykkti að festa í reglur hlé sem við höfum notað hér á Íslandi lengur og festum í lög hjá okkur á Landsþingi 2014, semsagt, að þegar skipt er um hönd í hraðabreytingakafla T1 skal gert hlé í 1 mínútu og hestum lofað að feta rólega.  Sem og að þegar skipt er um hönd á yfirferð skal gert hlé í 2 mínútur.  Þetta var notað til reynslu síðastliðið sumar og var almenn ánægja með það.  Svo þetta er ekki lengur íslensk sérregla.
 3. Þá var samþykkt að herða viðurlög við því að tilkynna ekki eða of seint, forföll í úrslitakeppni.  Eins og við samþykktum hér á þingi 2014 að allur árangur knapa á mótinu falli niður og að hann fái 2 vikna keppnisbann sem hefjist á mánudegi eftir að móti lýkur.  Semsagt, það þarf að tilkynna forföll a.m.k. klukkustund áður en fyrstu úrslit í viðkomandi grein hefjast.  Þetta er semsagt ekki heldur lengur íslensk sérregla.
 4. Eins var samþykkt að dæma fólk úr keppni og fella niður árangur, mæti það vísvitandi ekki í fótaskoðun eftir keppni. 
 5. Þá var samþykkt regla um að ef ekki er unnt að skoða hest af því að hann lætur ekki skoða sig, þrátt fyrir tilraunir til að róa hann niður, þá skuli hann dæmdur úr leik.
 6. Þá var samþykkt að búa til reglu um hvað skuli gera, bili rafræn tímataka í miðjum kappreiðum.  Er þá sett inn heimild til að setja í gang handtímatöku og skuli bætt 0,4 sek við rafrænan tíma.  Þannig megi, í undantekningartilvikum, nota blandaða tímatöku. 
 7. Þá voru skýrðar reglur um það hver skuli taka út velli fyrir HM.  Í reglum var það yfirdómari en hann er jú ekki skipaður fyrr en miklu seinna en búið þarf að vera að taka út vellina.  Svo að nú skal Sport Director, þ.e. formaður sportnefndar Feif gera það. 
 8. Þá var reglum um breidd valla á HM breytt, hann var breikkaður úr 4 m í 6 metra.
 9. Þá var gefið leyfi fyrir því að sami hestur, með mismundandi knapa, megi hefja keppni á sama móti í fleiri en einni töltgrein og fleiri en einni fjórgangsgrein/fimmgangsgrein.  Þetta er gert fyrst og fremst með lítil mót í huga þar sem fjölskyldur eru jafnvel að keppa á sama hesti.  Þó gilda alltaf reglur um það hvað hestur má hefja keppni oft innan dags.

Það er þó ekkert sem útilokar að þessi regla sé notuð í efri flokkum. 

Á fundi sportnefndarinnar og sportfulltrúa landanna var ýmislegt rætt og eftirfarandi hlutir samþykktir og koma þeir til samþykktar aðalfundar í febrúar 2017.  Semsagt, breytist EKKI núna.

 1. Í kjöri í Sportnefnd FEIF voru núna Hulda Gústafsdóttir IS og Vicky Eggertsson DE.  Þær voru báðar endurkjörnar. 
 2. Samþykkt var að breyta því að ákvörðun yfirdómara (áður dómara)  um lögmæti méla og útbúnaðar sé endanleg á hverju móti.
 3. Orðalagi er breytt hvað varðar járningar, þannig að heimilt er að endurjárna, falli skeifa af en orðalag í lögum var óskýrt um þetta atriði.
 4. Það komu upp þær aðstæður á HM þar sem ekki var hægt að fá fram upp á hvora hönd skyldi riðið þar sem tveir voru efstir og jafnir og því enduðu atkvæðin alltaf á jöfnu.  Því var bætt við þá grein að ef þetta komi upp, skuli kasta upp á hvaða hönd skuli ríða úrslit.  Sama á við um hvaða langhlið skuli notuð við að sýna skeið í úrslitum.
 5. Nokkur atriði voru fínpússuð í lögum svo sem að ekki þurfi lengur að tilnefna tímaverði á HM þar sem tímataka er rafræn á HM.  Einnig að ekki þurfi að vera takmörk fyrir því hvað fótaskoðunarmenn séu margir. 
 6. Þá var hnykkt á því að til að hægt sé að nota dýralæknisvottorð til að skrá hest úr keppni, eftir að tímamörkum er náð, þ.e. seinna en 1-2 klst fyrir upphaf keppni, þurfi dýralæknirinn að vera á staðnum og hafa skoðað hrossið.
 7. Þá var samþykkt heimild til að fjölga liðsstjórum á HM fyrir lið sem hafa 8 liðsmenn eða fleiri.
 8. Þá er hnykkt á þjóðerni knapa, að það þurfi að vera skýrt.  Hver knapi getur einungis riðið fyrir eitt land á yfirstandandi keppnistímabili.  Breytingu á þjóðerni þurfi að tilkynna til FEIF fyrir 1. Apríl ár hvert.   Fyrsta breyting taki gildi þegar í stað, eftir það þurfi knapi að bíða í tvö ár áður en hann getur keppt fyrir nýtt land.  Í undantekningatilvikum getur stjórn FEIF breytt þessu. 
 9. Samþykkt var að gæðingadómarar með alþjóðleg skírteini megi vera skeiðeftirlitsmenn á skeiðkappreiðum.  Þetta var tillaga frá Íslandi.
 10. Samþykkt að leyfa öllum að fara annan sprett í gæðingaskeiði, þótt þeir eigi ógildan fyrsta sprett.
 11. Þá var samþykkt heimild til að setja upp C úrslit.  Þessi heimild hefur verið til staðar í íslenskum reglum í nokkur ár en ekki verið notuð.
 12. Þjóðverjar vörpuðu fram til umhugsunar hvort við séum að gera of miklar kröfur til skeiðreiðar á hringvelli. 
 13. Þá bauðst Svíþjóð til að yfirfara skeiðreglur og setja inn teikningar af básum og völlum til skýringa fyrir mótshaldara og keppendur.
 14. Rætt var um gul spjöld og notkun þeirra, í einhverjum löndum þarf að greiða peningasekt til hestaíþróttasambandsins fái knapar gul spjöld sem eru tilkynnt. Almennt rætt um notkun gulra spjalda og menn almennt á því að þau séu nauðsynlegt aðhald til að stemma stigu við grófri reiðmennsku en eigi ekki að vera bein refsing. 
 15. Þá var val á dómurum á HM rætt.  Samþykkt að nota dómsdaga til hliðsjónar en að það sé ekki bindandi eða eina viðmiðið. 
 16. Þá var samþykkt að skipta WR listanum upp í tvennt í hverri grein, það er að T1 og T3 verði ekki lengur á sama lista sem og í öðrum greinum.  Þetta er þegar komið til framkvæmda. 

Athugið, þetta er samantekt þar sem orðalag er ekki alltaf nákvæmt, breytingar þessar koma í nýjum reglupakka sem gefinn verður út og tekur gildi 1. apríl næstkomandi.

 

f.h. keppnisnefndar og Sportnefndar Feif

Hulda Gústafsdóttir