fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Breytingar í röðum kynbótadómara

odinn@eidfaxi.is
22. janúar 2014 kl. 13:47

Sigbjörn Björnsson á Lundum II er einn þeirra sem mögulega víkur sem kynbótadómari vegna nýju reglnanna

Hver dæmir kynbótahross í vor og hver víkur?

Nýlega voru samþykktar siðareglur kynbótadómara en þar er skerpt á nokkrum grundvallarspurningum sem uppi hafa verið.

Eitt er að setja reglur en annað að gera sér grein fyrir áhrifum þeirra og framkvæmd. Í reglunum segir meðal annars að starfsmönnum beri að auka faglega þekkingu sína en jafnframt er sagt að sá sem hefur hrossarækt, hrossasölu eða stóðhestahald sem sitt aðalstarf sé ekki tækur til þess að dæma.

Þá er rétt að spyrja hverja hefur þetta áhrif á og hvernig verður þessum reglum framfylgt.

Líklegt má telja að kynbótadómararnir Sigbjörn Björnsson, Svanhildur Hall og Magnús Lárusson falli undir regluna um að hafa hrossarækt, sölu og stóðhestahald að aðalatvinnu. Því má telja víst að þeir dæmi ekki hér á landi, en reglurnar ná ekki yfir dóma utan Íslands. Aðrir dómarar eins og Ágúst Sigurðsson og Jón Vilmundarson leggja stund á umfangsmikla hrossarækt en hafa hana ekki sem aðalatvinnu.

Fagstjóri RML Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir er fagstjóri hrossaræktarinnar og mun því sjá um að reglum þessum verði fylgt eftir.

Reglur um starfsmenn við kynbótadóma hrossa:

  •   Starfsmenn skulu fylgja þeirri grundvallarreglu að störf þeirra veki traust og virðingu. Þeir stundi fagleg vinnubrögð, tryggi jafnræði allra þátttakenda og styrki samstarf og samvinnu starfsmanna, eigenda og knapa.
  •   Starfsmenn skulu leitast við að auka faglega þekkingu sína.
  •   Starfsmönnum ber að fara eftir lögum og reglum sem gilda um kynbótasýningar.
  •   Dómari komi ekki að dómstörfum ef aðalstarf hans er við umfangsmikla hrossarækt, hrossasölu eða stóðhestahald. Ef vafi leikur á slíku almennu hæfi dómara sker fagstjóri búfjárræktar RML úr því áður en skipan dómnefnda er ákveðin ár hvert.