miðvikudagur, 26. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bréf til skipulagsyfirvalda

14. september 2012 kl. 10:38

Bréf til skipulagsyfirvalda

Hér meðfylgjandi eru bréfið sem Fákur, ásamt fleirum,  sendi inn varðandi deiliskipulagið sem er í kynningu varðandi Heiðmörkina og reiðleiðir þar. Á meðfylgjandi mynd er kort þar sem bent er á úrbætur og fjölbreyttari reiðleiðir og áningahólf fyrir hestamenn (nýjar tillögur merktar með bleiku en aðrar reiðleiðir eru brúnar á kortinu).

"Samtök hestamanna í samráði við Dagnýju Bjarnadóttur landslagsarkitekt og hestakonu hafa yfirfarið deiliskipulagstillögur Heiðmerkur. Hestamenn fagna framkomnum deiliskipulagstillögum, en til að tillögur að reiðleiðum nýtist vantar nauðsynlegar tengingar til að mynda nothæfar hringleiðir fyrir hesthúsabyggðir á Reykjavíkursvæðinu. Að öðrum kosti er einungis um langferðir að ræða fyrir hestamenn frá hesthúsasvæðum Fáks í Reykjavík, þ.e Víðidal og Almannadal / Fjárborg.
 
Meðfylgjandi uppdráttur sýnir tillögu að reiðleiðatengingum inn á fyrirhugaðar reiðleiðir skipulagsins, sem gerir það kleift að hestamenn á Reykjavíkursvæðinu geti notið Heiðmerkurinnar til jafns við aðra útivistarhópa.  Það skal tekið fram að mjög lítil umferð hestamanna er um svæðið á sumrin og haustin, en hestar eru aðallega á húsi frá desember og fram í byrjun júní.  (sjá meira undir nánar)
 
Reiðleiðir
Meðfylgjandi er kort með tillögum að úrbótum, teiknað ofan á deiliskipulagsuppdráttinn sem nú er í kynningu.  Sambærilegar athugasemdir með litlum breytingum voru sendar inn 21. september 2010, þegar skipulagið var fyrst kynnt, auk þess sem hestamenn hafa komið óskum sínum á framfæri með reiðleiðakorti sem sent var borgaryfirvöldum árið 2006.
 
Þær úrbætur á reiðleiðum sem lagðar eru til, sýnt með bleikum línum á kortinu, felast í því að mynda styttri hringleiðir  með því að bæta við tengingu:
 
Frá Elliðavatni austan við Myllulækjartjörn, með fram Heiðarvegi að Hraunslóð.
Meðfram Hjallabraut að Heiðarvegi.
Vestan megin við Myllulækjartjörn að Hjallabraut.
Auk þess er óskað eftir því að Rauðhólarnir verði áfram reiðleiðasvæði, eins og verið hefur og a.m.k. tvær leiðir beggja megin við skipulagða leið, verði staðfestar í deiliskipulagsuppdrætti. Önnur þeirra er samkvæmt  aðalskipulagi og hefur trúlega gleymst.  Núverandi reiðleið í gegnum Rauðhólana miðja, sem deiliskipulagið sýnir,  fer undir vatn á ákveðnu tímabili og er því ekki fær allt árið.
 
Bent er á að reiðleiðir eru ekki vel settar við hlið malbikaðra stofnstíga sem munu fyrst og fremst þjóna hjólandi umferð og óþarfi að skapa ástand þar sem gera þarf sérstakar ráðstafanir til að skilja þá umferð að eins og gefið er til kynna í textanum. Heiðmörk rúmar mjög auðveldlega alla þessa útivistahópa án þess að til árekstra þurfi að koma. Því er lagt til að þar sem landrými leyfir verði reiðleiðir lagðar í góðri fjarlægð frá akvegum og hjólastígum.
 
Áningastaðir
Engir merktir áningastaðir hestamanna er að finna á deiliskipulagsuppdrættinum. Á meðfylgjandi korti vekjum við athygli á þeim sem fyrir eru með bláum hring og H-i í miðjunni, en þeir bleiku eru tillögur að nýjum.  Auk hefðbundinna áningastaða sem eru venjulega timburslár sem mynda U, er lagt til að gert verði ráð fyrir tveimur áningastöðum  með lokuðum  gerðum,  þar sem spretta mætti af hesti og staldra aðeins lengur við, merkt ÁH, áningahólf,  á kortinu.  Þessir áningastaðir væru sambærilegir við áningasvæðin í tillögunni, þ.e með salernum, borðum -og bekkjum og grillaðstöðu.
 
Gatnamót – nýjar vegtengingar
Á meðfylgjandi uppdrætti er vakin athygli á þremur krítískum umferðapunktum, merkt 1,2,3 í bláum hring
Í deiliskipulagstillögunni er gert ráð fyrir nýrri bílabrú við Helluvatn, en gamla brúin þjóni reiðleið og stofnstíg.   Þess er óskað að stofstígur fylgi frekar útfærslu á nýju brúnni þar sem um hjólandi umferð er að ræða og heppilegra að draga hana frá reiðleiðinni.  Malargöngustígur gæti frekar átt samleið með reiðleiðinni.
Þar sem breytingar eru fyrirhugaðar við innakstur í Heiðmörk, frá Suðurlandsvegi, er mjög brýnt að skoða þær með aðgengi ríðandi umferðar í huga. Þetta er mikilvæg hringleið frá Fáki og ekki síst Almannadalssvæðinu, auk þess sem þetta tengir öll hestahúsasvæðin á stór Reykjavíkursvæðinu saman.  Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir akrein,  stofnstíg og reiðleið við núverandi undirgöng sem í dag þjónar eingöngu hestamönnum.  Óskað er eftir samráði við hestamenn við þessar útfærslur og leitað leiða til að leysa þetta með öðrum hætti.
Athygli vekur að hesthúsabyggð í Almannadal/ Fjárborg er ekki sýnd á kortinu, þó er gerð grein fyrir annari byggð í nágrenni deiliskipulagsins.  Bent er á að Almannadalur/ Fjárborg er nú þegar stórt heshúsasvæði og á núgildandi skipulagi er gert ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu svæðisins.  Tengingin er því mjög mikilvæg í dag og til framtíðar litið.
 
Þar sem reiðvegur um Hraunslóð kemur að Suðurlandsvegi þarf að gera ráð fyrir undirgöngum undir Suðurlandsveg. Auðveldlega má leysa þetta undir núverandi brú á Hólmsá.
 
Hestamenn ráðgera reiðvegatengingu frá Hraunslóða við reiðleið meðfram Hellisheiðaræð að Hellisheiðarvirkjun og austur fyrir fjall. Núverandi reiðvegur meðfram Suðurlandsvegi hjá Gunnarshólma og Geirlandi verður aflagður við tvöföldun Suðurlandsvegar.  Staðsetning undirgangnana þurfa að vera þar sem þeim verður viðkomið með tilliti til legu Hólmsár á milli Hraunslóða og gatnamóta Hafravatnsvegar. Væntanlega útfærsluatriði með Vegagerðinni og skipulagsyfirvöldum í Mofellsbæ  /  Kópavogi.
 
Útivist og vatnsvernd
Í deiliskipulaginu kemur skýrt fram að vatnsverndarsjónarmið séu ávalt höfð að leiðarljósi.  Hestamenn taka heilshugar undir þær áherslur.  Gert er ráð fyrir „sérstöku“ bundnu slitlagi á bílvegum og á einstaka stöðum er reiknað með útfærslum með olíugildrum meðfram vegum.  
Hestamenn hafa aldrei fengið rökstuddar skýringar á því af hverju okkar tillögur hafi ekki hlotið hljómgrunn. En munnlega hefur því oft verið haldið fram að vatnsvernarsjónarmið ráði þar för.  
Flestir vita að Heiðmörk er ræktuð upp af búfjáráburði og þá aðallega hrossataði, að meðaltali um hálf skúringarfata við hvert gróðursett tré.  
Ljóst er að ákveðin áhætta fylgir því að halda Heiðmörk opinni fyrir útivist, með tilheyrandi umferð akandi-, gangandi-,  hjólandi og ríðandi fólks, umgengni fólks er mismunandi, margir eru t.d. með hunda sem gera stykkin sín hér og hvar án þess að hirt sé upp eftir þá. En við teljum að ef hægt sé að leysa aðgengi fyrir aðra útivistarhópa, sem fylgir að okkar mati meiri mengunaráhætta en af ríðandi umferð, þá sé það einnig leysanlegt fyrir hestamenn.   Gera mætti t.d ráð fyrir sérstöku undirlagi og dúkum þar sem talið er ástæða til.
 
Lokaorð
Þær tillögur sem kynntar eru í þessu deiliskipulagi þjóna betur hestamannafélögum í næstu sveitafélögum, en heshúsabyggðum sem tilheyra Reykjavík og eru þó í næsta nágrenni við þetta skipulag.  Það er von okkar að tillögur þessar hljóti hljómgrunn við úrvinnslu athugasemda á Heiðmerkur deiliskipulaginu.
Auk þessara athugasemda er áskorun til skipulagsyfirvalda, sem samþykkt var á fjölmennum félagsfundi í Fáksheimilinu,  um að endrskoða skipulagið með þarfir hestamanna i huga.
 
Brautryðjendur ræktunar í Heiðmörk, þeir Hákon Bjarnason og Einar G. E. Sæmundsen, voru báðir miklir hestamenn og sáu Heiðmörkina fyrir sér sem griðastað fyrir skógrækt og fjölbreytta útivist þ.m.t. hestamennsku.  Haft var samráð við Helgi Gíslason núverandi framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur við gerð tillagna hestamanna að reiðleiðum og væntum við góðs samstarfs við Skógræktarfélagið um nánari útfærslur á þeim."