fimmtudagur, 21. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bráðefnileg Lukkudóttir

3. mars 2014 kl. 11:18

Gígjarsdóttirin Síbíl frá Torfastöðum og Hans Þór Hilmarsson.

Tamningamenn með hugann við Landsmót í 2. tölublaði Eiðfaxa.

 

Hans Þór Hilmarsson og Helgi Eyjólfsson eru í hópi tamningafólks sem er með aðstöðu á Ingólfshvoli í Ölfusi. Þeir félagar útskrifuðust saman sem reiðkennarar frá Hólum og taka báðir þátt í uppfærslu sýningar Fákasels ásamt tamningum.

Hans Þór er með rúm tíu hross í þjálfun en Helgi um sex hross. Ásamt tamningum sér hann um járningar hrossanna á Ingólfshvoli og er því í mörg horn að líta hjá honum. Af spennandi hrossum þá er Hans Þór með mjög efnilega hryssu á fjórða vetri undan djásninu Lukku frá Stóra-Vatnsskarði og Orra frá Þúfu, en Lukku fékk hann að halda sem launauppbót eftir að hafa tamið hana og sýnt. Af eldri hrossum nefnir hann brúna hryssu frá Stóra-Vatnsskarði undan Hrannari frá Þorlákshöfn, Gígjarsdótturina Síbíl frá Torfastöðum sem er fyrstu verðlauna klárhryssa sem hann telur eiga talsvert inni og gráa hryssu sammæðra Lottu frá Hellu sem hann reið í úrslitum A-flokks gæðinga á síðasta landsmóti. „Hún er ekki að fara í keppni í ár, en ég er með Kiljan frá Steinnesi í þjálfun og stefnan er að ég reyni fyrir mér í keppni með hann,” segir Hans Þór hugsi.

Helgi er ekki með mörg hross en góð. Tveir synir Leistu frá Lynghóli eru í þjálfun, gráa fyrstu verðlauna hryssu undan Gandálfi frá Selfossi sem heitir Brák frá Egilsstöðum. „Ég er líka með mjög efnilegan Stálason á fimmta vetri frá frænku minni á Lynghóli, en auk þess er ég að þjálfa Stimpil frá Vatni og fer líklega með hann í keppni í vor,” segir Helgi með þeirri hógværð sem hann hefur ættir til.

 Í 2. tölublaði Eiðfaxa fer blaðamaður í heimsókn á nokkrar tamningastöðvar og skoðar spennandi unghross í aðdraganda Landsmóts. Hægt er að panta áskrift í síma 511 6622 eða í gegnum tölvupóstfangið eidfaxi@eidfaxi.is.