þriðjudagur, 23. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Blóðþrýstingur fer ört hækkandi

30. júní 2014 kl. 16:08

Svafar Magnússon og Sigurjón Rúnar Bragason voru hressir í brekkunni að horfa á barnaflokkinn.

Foreldrar knapa í barnaflokki teknir tali.

,,Hjartslátturinn pumpast upp og þá er gaman að horfa á hin. Svo er hesturinn í braut úr okkar ræktun, Atgeir frá Sunnuhvoli, þannig að það er bæði ræktun í hestum og knöpum,” segir Anna Björg Níelsdóttir móðir Sunnuhvolssystkininna Arnars Bjarka, Glódísar Rúnar og Védísar Huld þegar Eiðfaxi rakst á hana á brautarenda.  Hún segir alltaf sama spenninginn þegar börnin eru í braut, þó þau séu búin að keppa á fleiri en einu Landsmóti. ,,Það lærist ekki að slaka sig niður þrátt fyrir að eiga 23 ára strák, Arnar Bjarka, sem hefur mikla keppnisreynslu, 12 ára stelpu, Glódísi Rún, sem hefur unnið Landsmótið tvívegis og Védísi Huld sem er að keppa á sínu öðru Landsmóti núna. Þær systur þurfa að hafa fyrir því ef þær ætla að landa titlinum þetta ári. Þetta þarf allt að vera í hendi.”

,,Drengurinn er ekki búinn og blóðþrýstingur í botni,” segir Sigurjón Rúnar Bragason, faðir Arnars Mána og Heiðu Rúnar, sem á eftir að ríða í braut þegar þetta er skrifað. Fjölskyldan stundar hestamennsku í Víðidalnum og eru foreldrarnir duglegir að fylgja börnunum á mót. Rúnar myndi teljast í minnihluta í sínu hesthúsi því krakkarnir hafa tekið alla hestana og telst það hans verk að moka og sjá til þess að hesthúsið sé hreint. ,,Það er mjög erfitt og vanmetið starf og maður fær mjög sjaldan hrós.”