fimmtudagur, 22. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Blikur á lofti varðandi Landsmót

Jens Einarsson
5. maí 2010 kl. 11:31

Betra að taka ákvörðun fyrr en seinna

Það er einfaldlega komin upp sú staða að menn verða að fara að íhuga alvarlega að setja í gang viðbragðsáætlun varðandi Landsmótið í sumar,“ segir Guðlaugur Antonsson, hrossaræktarráðunautur.

Landsmótið í hættu

„Hestapestin er grafalvarlegt mál, mun alvarlegra en menn héldu í fyrstu. Það liggur fyrir að hún mun hafa veruleg áhrif á þátttöku í kynbótasýningum. Hún er reyndar þegar farin að hafa áhrif. Það gæti orðið mjög erfitt að koma öllum hrossum fyrir á síðustu sýningum ef skyndilega drægi úr pestinni þegar líður fram á vorið. Ef veikin heldur sama dampi þrátt fyrir hlýnandi veður þá verða menn hreinlega að spyrja sig hvort raunhæft sé að halda forskoðunum til streitu og hvort ekki sé skynsamlegast að blása Landsmótið af.“

Fundur í Landsmótsnefnd

Guðlaugur segir að einn atkvæðamikill knapi, Agnar Þór Magnússon, sé þegar búinn að afbóka sín hross á kynbótasýningu sem haldin verður á Blönduósi á fimmtudag og föstudag. Um er að ræða aukasýningu sem var sett á vegna pestarinnar.

 „Það er fundur hjá Landsmótsnefnd á föstudaginn í Varmahlíð í Skagafirði. Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma, mun koma á þann fund og ég geri ráð fyrir að þar verði farið yfir stöðuna. Fyrir mitt leyti þá tel ég að menn verði einfaldlega að leggja kalt mat á það fyrr en seinna hvort rétt sé að halda Landsmótinu til streitu. Það yrði vissulega erfiður biti að kyngja fyrir okkur hestamenn ef það yrði blásið af.. En þó minni fjárhagslegur skaði að draga í land fyrr en seinna. Í þessu samhengi getum við hestamenn sett okkur í spor þeirra sem nú þurfa að glíma við öskufall og afleiðingar þess. Við gætum verið í verri málum en að þurfa að fella niður eitt Landsmót,“ segir Guðlaugur.

Því má bæta við að hrossaræktarráðunautur hefur gefið út tilkynningu þar sem kemur fram að öllum hrossum sem sýna einhver einkenni pestarinnar, nefrennsli eða hósta, verður vísað úr sýningu.