sunnudagur, 22. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bleikur og blesóttur - fyrirlestur um litbrigði hestsins

22. júní 2011 kl. 11:35

Bleikur og blesóttur - fyrirlestur um litbrigði hestsins

Bergljót Rist leiðsögumaður og hestakona fjallar um hin einstöku litbrigði íslenska hestsins á Kjarvalsstöðum sunnudaginn 26. júní kl. 15. Viðburðurinn tengist sýningunni Jór!- Hestar í íslenskri myndlist en einnig verður farið um sýninguna og verkin skoðuð út frá efnistökum Bergljótar.  Eitt af helstu einkennum íslenskra hesta eru litbrigðin og hin skáldlegu heiti sem þeim hafa verið gefin. Þannig er talað um rauðan lit, bleikan, leirljósan, brúnan, mósóttan, jarpan, bleikálóttan, moldóttan og móvindóttan. Litirnir eru eitt, en Bergljót mun einnig leiða gesti í sannleik um það hvernig hestarnir eru líka ýmist skjóttir, blesóttir, stjörnóttir, nösóttir, tvístjörnóttir eða sokkóttir.

 
Á sýningunni er varpað ljósi á hvernig hesturinn hefur birst íslenskum listamönnum í eina öld. Hann hefur verið viðfangsefni þeirra í aðal- og  aukahlutverki í landlagsmálverkum, mannamyndum eða sem táknmynd. Listamenn túlka hér tengsl manns og hests, en sýningunni er skipt í þrjú þemu: Þarfasti þjónninn; um hversdagsleg samskipti manns og hests, Holdgaður stormur; um hestinn sem náttúru og Hestar með vængi; hinn goðsagnalegi hestur.
 
Viðburðurinn er skipulagður í samvinnu við Landssamband hestamannafélaga.