miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Blásið til fagnaðar

30. september 2013 kl. 16:39

Á landsmóti á Vindheimamelum árið 1974 mættu Léttisfélagar fyrstir hestamannafélaga í samræmdum reiðbúningi, rauðum jakka og ljósum buxum. Hér sjást Léttismenn á opnunarhátíð Landsmóts í fyrra.

Léttir á Akureyri fagnar 85 ára afmæli.

“Það er alltaf góð tilfinning að vera hluti af einhverju samfélagi. Ég held að hestamenn yfirleitt séu félagslyndir og hamingjusamt fólk sem nýtur þess að vera á góðum hesti í góðum félagsskap.” Þetta segir Andrea Þorvaldsdóttir, formaður hestamannafélagsins Léttis á Akureyri, sem fagnar 85 ára afmæli félagsins 5. nóvember næstkomandi.

 Í tilefni afmælisins verður blásið til fagnaðar að hætti hestamanns laugardaginn 2. nóvember. Opið hús verður í Léttishöllinni þar sem starfsemi félagsins verður kynnt. Teymt verður undir börnum og veitingar verða í boði. Um kvöldið stendur svo til að halda hátíðarkvöldverð og dansleik.

Munur er að mannsliði

Léttir var stofnaður árið 1928 og er þriðja elsta hestamannafélag landsins á eftir Reykjavíkurfélaginu Fáki  og Glaði í Dalasýslu. Stofnfélagar í Létti voru 15 talsins. Upphaflegur tilgangur félagsskaparins var að stuðla að réttri og góðri meðferð á hestum, efla áhuga og þekkingu á ágæti þeirra og íþróttum, greiða fyrir því að félagsmenn gætu átt hesta og bæta reiðvegi frá Akureyri. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan, Léttismenn hafa komið upp góðri aðstöðu fyrir hestamenn á Akureyri, fjöldi móta og námskeiða eru haldin á hverju ári og félagsmenn eru orðnir 453.

Andrea segir að það sé hestamönnum mikils virði að vera hluti af hestamannafélagi. Hestamannafélög þjóni ekki aðeins sem félagasamtök til að sameina hestamenn, heldur eru þau hagsmunasamtök. “Starf innan hestamannafélagan er svo mikilvægt og getur aldrei orðið betra en þeir sem í félaginu eru. Það er mikill styrkur fyrir hestamannafélögin að sem flestir hestamenn séu skráðir í hestamannafélag því við náum ýmsu fram með fjöldanum. Og þó hestamannafélögin eru íþróttafélög eru þau ekki síður hagsmunasamtök fyrir alla hestamenn,” segir Andrea sem hefur verið formaður Léttis í fjögur ár. “Ég hvet því alla hestamenn, hvar sem þeir eru að skrá sig í félagið á sínu svæði og leggja þeim þannig lið í baráttunni fyrir betri aðbúnaði fyrir hestamenn.”