fimmtudagur, 17. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Blandar saman gömlum og nýjum gildum reiðmennskunnar-

11. febrúar 2011 kl. 17:01

Blandar saman gömlum og nýjum gildum reiðmennskunnar-

Sigurbjörn Bárðarson mun vera með sýnikennslu á afmælishátíð FT þann 19. febrúar nk. í reiðhöllinni í Víðidal.

Því var hvíslað að Eiðfaxa að Sigurbjörn ætlaði að blanda saman gömlum og nýjum gildum reiðmennskunnar í sýnikennslu sinni og kom því ekki annað til greina en að hnýsast meira um það.

Hvað mun fara fram í sýnikennsluni þinni?
“Ég mun leggja áherslu á samspil eldri íslenskrar reiðmennsku og nýrra tíma, og tengja klassíska reiðmennsku við hina íslensku. Áherslan verður lögð á vensl nýrra nálganna við hina hefbundnu íslensku reiðmennsku sem við ólumst upp við. Ég mun spjalla um notkun taumhandar, sætis og samspils mismunandi æfinga við gangtegundir íslenska hestsins. Auk þess sem mun ég ræða hvernig við varðveitum gamlar hefðir í reiðlist og hvernig við getum nútímavætt hana.”

Afhverju er sýnikennsla sniðug leið til að miðla þekkingu?
“Í sýnikennslu getur áhorfandinn séð hvernig kennarinn ber sig að í því sem hann er að segja frá. Áhorfandinn getur síðan notað aðferðirnar þegar hann þjálfar sjálfur. Ég held að áhorfandinn geti numið margt í sýnikennslu sem getur verið nokkuð framandi þegar hann situr á baki. Tengingin verður þannig meiri og skilningur áhorfandans verður enn betri eftir að hafa horft á æfingar framkvæmdar,” segir Sigurbjörn og bendir á frjálsleika sýnikennsluformsins. “Því þegar áhorfandinn fylgist með sýnikennslu getur hann tekið það heim með sér sem hann kýs. Sýnikennsla þvingar enga ákveðna aðferðafræði upp á áhorfandann. Þvert á móti er reiðmennskan kynnt og svo getur áhorfandinn kosið ákveðin atriði til að taka með sér heim, allt eftir því sem hans reiðmennsku hentar.”

Nú er Félag Tamningamanna að halda upp á 40 ára starfsafmæli sitt. Hvaða þýðingu hefur FT fyrir hestamennskuna?
“Félag Tamningamanna er fagfélag sem samanstendur af fagmönnum í greininni. Verkefni félagsins er að halda utan um reiðmennsku og á að vera í fararbroddi hennar, koma á framfæri nýjungum. FT á að vera mótandi afl íslenska hestsins á heimsvísu og stuðla að framförum reiðmennskunnar.”

Sigurbjörn mun tefla fram Jarli frá Miðfossum í keppni í gæðingafimina í kvöld, en þeir félagarnir urðu í öðru sæti í sömu keppni í fyrra. Það verður því spennandi að sjá hvernig þeim mun vegna í kvöld.

Eiðfaxi óskar honum góðs gengis í kvöld og þakkar honum fyrir samtalið.