mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bjarni tekur ventilinn úr

5. nóvember 2012 kl. 14:49

Oddur Árnason ríður skaftfellsk vötn á reiðhesti sínum. Fallegt samspil og gagnkvæmt traust manns og hests í íslenskri náttúru.

„Knapa- og hetjudýrkun situr klofvega á hrygglengju samfélags hestamanna og ber ákaft fótastokkinn“

SKOÐUN/ Jens Einarsson skrifar:

Bjarni Þorkelsson á Þóroddsstöðum hefur tekið ventilinn úr katli sem lengi hefur verið við það að springa í höndum hestamanna. Í pistli sem hann skrifar á Isbless.is.

Þar segir hann að það að val á kynbbótaknapa ársins sé einhver óheppilegasta og heimskulegasta keppnisgrein sem fundin hefur verið upp. Því hafi ráðið annarleg skammtímasjónarmið á sínum tíma. Bjarni útskýrir reyndar ekki hver þau voru, en á líklega við það þegar Kristinn Hugason, fyrrverandi hrossaræktarráðunautur, skrifaði grein í Eiðfaxa um miðjan tíunda áratug síðustu aldar (Upp á himins bláum boga) og raðaði knöpum í vegtyllur. Nokkur hvellur varð í kjölfarið, en í framhaldi var farið að verðlauna knapa á Uppskeruhátíð hestamanna, sem Júlíus Brjánsson leikari fann upp um svipað leyti, en Kristinn kom talsvert að framkvæmd hátíðarinnar fyrstu árin.

Undirritaður hefur margoft bent á hve kynbótasýningar séu komnar langt frá upphalflegu markmiði sínu. Þær eru í dag ekkert annað en ný afmörkuð keppnisgrein, og jafnframt sú harðasta og ófyrirleitnasta í íslenskri hestamennsku. Margt hefur hjálpast að.

Í fyrsta lagi sú uppfynding að girða þrönga beina braut með snúrum, sem hrossin halda að sé rafmagnsgirðing. Í sumum tilfellum hafa menn reyndar girt brautirnar með rafmagnsgirðingarþræði. Toppurinn á skömminni er þó „kynbótabrautin“ í Österbyholz í Þýskalandi, steinveggur á aðra hönd og tvöfalt járnvirki á hina. Eru það stríðsminjar? Með „rafgirtri“ beinni braut náðu knapar „ofurvaldi“ á hrossunum (trippunum), sem féll vel í kramið, bæði hjá dómurum, eigendum og áhorfendum. Ræktunin á uppleið!!!

Viðurkenning fyrir góða frammistöðu er í flestum tilfellum jákvæð. En hún þarf að veitast á réttum forsendum. Eins og ég gat um í Endaspretti Hestablaðsins nýlega er ég ekki viss um að krýningar þær sem hér eru til umræðu eigi rétt á sér í hestamennskunni; hvorki í kynbótunum né sportinu. Hestamenn hafa einfaldega ekki þroska til að taka við þeim, margir ef ekki flestir. Ávallt er svo stutt í ofmetnað og hroka. Ástæðan er sú að vegtyllur og kommur eru  í hestamennskunni taldar ávísun á peninga. Það er aflið sem dregur ferlíkið á eftir sér.

Og tilgangurinn helgar meðalið. Bæði kynbótaknapar og ræktunarbú fá flest stig fyrir að sýna 4 vetra trippi í sem hæsta einkunn. Það er lykillinn að góðu gengi. Örfáir snillingar komast í gegnum þær raunir, en flest 4 vetra trippi, og jafnvel 5 vetra, bíða varanlegan skaða af. Það er pínlegt að hlusta á „fagfólk“ kenna hinum óreyndari að stangamél séu aðeins fyrir mikið tamin hross, en horfa síðan upp á hina sömu etja trippum á vaðið með slíkum mélum og krossmúl til viðbótar. Já, setjum kíkinn fyrir blinda augað ef vegtyllur og gull er í boði.

Lengi hefur verið deilt um réttmæti þess að sýna 4 vetra trippi í kynbótadómi yfirhöfuð. Þar hafa Þjóðverjar gengið á undan með góðu fordæmi lengi vel, en þar er slíkt ekki heimilt. Þótt nú kunni að verða breyting á þegar FEIF er orðið eitt kynbótadómasvæði! Nema nýir vendir komi til sögunnar og sópi þessari skömm í burtu.

Það er mín skoðun að ekki sé réttmætt að velja einhvern einn knapa ársins í hverri grein – og sömuleiðis ræktunarbú ársins. Það má vel gefa þeim sem standa sig vel örvandi klapp á bakið með öðrum hætti. Í fyrsta lagi er matið á frammstöðu hvers og eins í öllum tilfellum mjög huglægt, og á ég þar við árangurinn á árinu sem lagður er til grundvallar. Í öðru lagi eru það tveir sem eiga í hlut þegar um val á knapa er að ræða. Hann kemst ekkert hestlaus.

Í þriðja lagi þá hafa vegtyllur þessar, og það á einnig við um ræktunarbúin, haft afgerandi áhrif á hegðun og gjörðir viðkomandi aðila í þeirra fagi. Mikið forval á sér stað í kynbótasýningum. Skráður „ræktandi“ gengur kaupum og sölum. Knapar keppa í forkeppni hingað og þangað til að næla sér í stig sem einhversstaðar kunna að verða skráð, en mæta ekki í úrslit. Og svo framvegis. Og nú vilja menn jafnvel fá skráðan árangur í reiðhöllum og vetraruppákomum í WorldFeng! Er ekki lengur hægt að fara á hestbak bara vegna þess að það er gaman?

Æ fleiri eru að upplifa þá tilfinningu að sá hluti hestamennskunnar sem snýr að keppni og kynbótastarfi sé gjaldþrota. Sorgleg birtingarmynd þess er úrslitakeppnin í tölti á LM2012, sem var firrtur kappleikur. Með hávaða, gauragangi og frekju. Hrossin meidd. Engin fegurð, ekkert samspil, engin list!

Takk fyrir Bjarni. Vonandi ganga fleiri í lið með okkur opinberlega.

Jens Einarsson, ritstjóri