föstudagur, 20. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Benedikt vill nálgast grundvöll samspils-

15. febrúar 2011 kl. 12:02

Benedikt vill nálgast grundvöll samspils-

Samspil verður þema í sýnikennslu sem Benedikt Líndal verður með á afmælishátíð Félags Tamningamanna nk. laugardag.

Benedikt þarf ekki að kynna fyrir hestamönnum. Hann er einn fimm reiðkennara á Íslandi með A-reiðkennararéttindi og meistarapróf í tamningum frá FT - Félagi Tamningamanna, hann hefur starfað við reiðkennslu, tamningar og þjálfun heima og erlendis, hefur gefið út kennslumyndir og fræðslubækur um tamningar og þjálfun og er hönnuður Benni´s Harmony reiðtyga. Hann vinnur nú myrkranna á milli við tamningar og þjálfun í Borgarnesi og segist vera með mörg ung hross á húsi.

„Ég mun taka hluta af því sem ég geri hér heima, með mér til Reykjavíkur. Ég ætla að vinna með tvo til þrjá hesta á misjöfnum tamningastigum og leyfa fólki að fylgjast með aðferðum mínum. Ég mun gera tilraun til að nálgast grundvöll samspils, en það er þegar hesturinn líður vel og er sáttur meðan hann vinnur. Þá og aðeins þá er grundvöllur fyrir samspili,“ segir Benedikt.

Inntur eftir þýðingu Félags Tamningamanna fyrir hestamennsku segir Benedikt hana skýra. „Félag Tamningamanna á að hafa forustu með hestvænar aðferðir í þróun tamninga og þjálfunar á íslenska hestinum.“

Dagskrá afmælishátíðar FT stendur frá kl. 10 - 16, en hátíðin er að mestu leyti samsett af fjölbreyttum sýnikennslum tamningamanna og reiðkennara, auk þess sem kynnt verður ný keppnisgrein sem nefnd innan FT hefur unnið að þróun á. Aðgangseyrir er 1.500 kr. sem gildir á alla dagskráliði dagsins.