föstudagur, 23. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Beggi Eggerts og Besti fljótastir í 250 metra skeiði

5. júlí 2019 kl. 16:20

Frauke Schenzel [DE] - Gustur vom Kronshof HM2017.

Keppni á Þýska meistaramótinu hélt áfram í dag.

Keppni á Þýska meistaramótinu heldur áfram og nú er lokið forkeppni í fimmgangi, slaktaumatölti og einnig er fyrstu tveimur sprettum í 250 metra skeiði lokið. Keppni í Tölti fer svo fram á morgun laugardag, en þar er landsliðsknapinn Haukur Tryggvason á meðal þátttakanda.

Í fimmgangi er ríkjandi heimsmeistarinn í fimmgangi, Frauke Schenzel, í efsta sæti að lokinni forkeppni. Hestur hennar er Gustur vom Kronshof og er einkunn þeirra 7,60. Samkvæmt einkunnum átti hún jafna og góða sýningu. Frauke átti einnig góða sýningu í slaktaumatölti á Gusti og er einkunn þeirra þar 7,83 og fjórða sætið að lokinni forkeppni.

Í öðru sæti í fimmgangi er Sigurður Rúnar Pálsson og Frami vom Hrafnsholt með 7,43 í einkunn. Þeir voru einnig þátttakendur í slaktaumatölti og er einkunn þeirra 7,40. Það er spurning hvort að Sigurður Rúnar blandi sér í baráttuna um landsliðssæti með þessum árangri á Þýska meistaramótinu.

Lisa Drath og Byr frá Strandarhjáleigu eru þriðju í fimmgangi með einkunnina 7,30

Í slaktaumatölti náði Stefan Schenzel mjög góðum árangri og er hann efstur með einkunnina 8,53. Hryssa hans er hestamönnum kunnug en það er hún Óskadís vom Habichtswald en hún stóð efst í flokki 7 vetra hryssna á heimsmeistaramótinu í Berlín árið 2013. Dörte Mitgau er í öðru sæti í slaktaumatölti á Jarl vom Schloss Nienover með 8,10 í einkunn.

Beggi Eggertsson og Besti frá Upphafi hlupu hraðast í 250 metra skeiði og leiða þegar fyrstu tveimur sprettum er lokið, en seinni tveir sprettirnir fara fram á morgun, laugardag. Tími þeirra er 22,04 sekúndur.