fimmtudagur, 17. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Batnandi horfur á sölumarkaði

16. október 2011 kl. 12:04

Batnandi horfur á sölumarkaði

Batnandi horfur eru á sölumarkaðinum hérlendis, en salan hefur aukist töluvert í haust eftir nokkra lægð í vetur og sumar. Í ár hafa 844 hross verið seld út og er ljóst að herða þarf róðurinn ef hreyfingin á að vera í líkindum við hátindaárið 2008, en þá fóru 1.776 hross út. Landsmót í Reykjavík mun vonandi veita markaðnum mikilvægan byr enda er forsenda blómlegrar sölu að fá hingað til lands væntanlega kaupendur.

Lítil áherslubreyting hefur verið á þeim hestgerðum sem sótt er eftir. „Mesta eftirspurnin er eftir vel tömdum keppnishrossum og efnilegum vel ættuðum merfolöldum og mertrippum.Minna er hins vegar spurt eftir þessum þæga miðlungshrossi,“ segir Ársæll Jónsson á hrossaræktarbúinu Eystra-Fróðholti.  Kristbjörg Eyvindsdóttir í Auðsholtshjáleigu tekur í sama streng. „Reiðhross, sem ekki eru keppnishross lenda svolítið milli vita. Þetta eru samt prýðishross, kannski svolítið viljug og kvik, ekki fullkomlega traust. Þetta eru hross sem Íslendingar hafa keypt til útreiða, en henta ekki altaf markaðnum erlendis,“

Nýta þarf fjölbreytt sölu- og kynningartæki

 „Hér hjá okkur hefur salan gengið frekar dauflega framundir þetta. En nú greinum við ákveðnar blikur á lofti því eftirspurn jókst gríðarlega nú síðsumars og með haustinu. Kannski má segja að hestaréttirnar hafi ýtt verulega undir þá eftirspurn,“ segir Ársæll og vitnar þar í árlegan viðburð búsins, en slíkir opnir dagar hrossaræktarbúa eru dæmi um þá fjölbreyttu viðburði sem ræktendur hafa staðið fyrir í haust til að laða til sín kaupendur.

Kristbjörg segir deyfðina eðlilega en ber væntingar til næsta árs. „Haustið er alltaf sá tími þegar mikið fer út af hrossum. Í vikunni sendum við út 50 hross, sum þeirra voru seld fyrr í ár, hross sem voru að koma af afrétt, hryssur sem voru hjá stóðhestum, önnur hafa selst síðustu vikurnar. Sölumarkaðurinn er ívið rólegri í ár heldur en hann hefur verið öflugastur. Það er þó bæði sala og hreyfing. Markaðurinn hefur alltaf gengið í sveiflum og ég tel eðlilegt að eitthvað hægist um miðað við efnahagsástandið erlendis. Hestamennskan er þannig lífsstíll að sala dregst saman þegar þrengir að. Ég hef væntingar til þess að viðsnúningur verði strax á næsta ári. En til þess verðum við þó að nýta þau sölu- og kynningartækifæri sem Landsmót í Reykjavík býður upp á og síðan í framhaldi af því öflugt heimsmeistaramót í Berlín. Fyrir erlenda markaðinn er mikilvægt að fá kaupendur til landsins, sýna þeim hvað við höfum upp á að bjóða. Hagsmunir greinarinnar liggja í því að standa saman að öflugri kynningu, sýna hvers hestamenn eru megnugir þegar þeir beita sér.”

 Í 7. tbl. Eiðfaxa fer Óðinn Örn Jóhannsson yfir stöðu og þróun sölu- og  markaðsmála.