þriðjudagur, 19. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Baldur frá Bakka fallinn

26. apríl 2010 kl. 09:59

Dvaldi síðustu árin á Hawai

Stóðhesturinn Baldur frá Bakka er fallinn. Hann eyddi síðustu æviárunum á Hawai í eigu nokkurra kvenna þar. Baldur var framúrskarandi kynbótahestur, undan Náttfara frá Ytra-Dalsgerði og Söndru frá Bakka, Hrafnsdóttur frá Holtsmúla.

Baldur var frábær keppnishestur og varð meðal annars heimsmeistari í fimmgangi á HM1999 í Rieden í Þýskalandi. Hann hefur gefið mörg góð kynbótahross og dætur hans eru að skila miklu. Hann er líklega sá stóðhestur sem hefur verið hvað sterkastur í að gefa góða keppnishesta; lundgóð hross með góðar, hreinar gangtegundir. Hann er með 120 í kynbótamati, gefur bæði góða byggingu og hæfileika. Ókostur Baldurs var að hann varð snemma ófrjór, á ekkert afkvæmi eftir 1999. Þekktustu stóðhestar undan Baldri eru Depill frá Votmúla, sem er á meginlandinu, og Dagur frá Strandarhöfði. Báðir afburða keppnishestar.

Þess má geta að í smíðum er kvikmynd um Baldur. Það er Þorfinnu Guðnason, kvikmyndagerðarmaður, sem hefur ráðist í það verk. Tökur hófust síðastliðið haust. Hann og Baldur Þórarinsson á Bakka, ræktandi Baldurs, heimsóttu þann ferfætta til Hawai í fyrra og var sú stund að sjálfssögðu fest á filmu. Baldur frá Bakka verður í úttekt í næsta tölublaði Hesta&Hestamanna.