sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bætt líkamsvitund, betri reiðmennska

16. maí 2019 kl. 14:00

Bergrún Ingólfsdóttir og Þórbjörn frá Tvennu

Viðtal við Bergrúnu Ingólfsdóttur reiðkennara og einkaþjálfara

 

Hestaíþróttir eru ekki frábrugðnar öðrum íþróttum, að því leyti, að til þess að hámarksárangur náist þurfa hestur og knapi að vera í góðu líkamlegu ástandi. Afreksmenn í hestaíþróttum verða stöðugt meðvitaðari um þetta og sækja sér heilsubót í gegnum allskyns aðra hreyfingu en hestamennskan bíður upp á. Bergrún Ingólfsdóttir er menntaður reiðkennari frá Háskólanum á Hólum auk þess að vera með einkaþjálfararéttindi. Blaðamaður Eiðfaxa tók tal af henni og ræddi um hestamennskuna og mikilvægi góðrar heilsu.

Uppalinn við hross

Bergrún Ingólfsdóttir er fædd árið 1989 og er alinn upp að mestu í Rangárvallasýslu, nánar tiltekið í Kálfholti og síðar Lyngholti. Í dag býr hún á Skagaströnd en rekur tamningastöð á Blönduósi ásamt því að starfa við reiðkennslu, sem stundakennari í Háskólanum á Hólum og einkaþjálfari. En hvernig kom það til að Bergrún byrjaði í hestum „Fjölskyldan mín hefur alla tíð stundað hestamennsku og ég er því fædd inn í hestasportið. Ég hef síðan meira og minna verið starfandi við hestamennsku frá unglingsaldri, bæði heima og að heiman.“  Eftir að hafa lokið stúdentsprófi frá Selfossi lá leiðin norður í land í Háskólann á Hólum þar sem Bergrún lauk BS námi í reiðkennslu og reiðmennsku og núna síðast bætti hún við sig einkaþjálfaranámi við Keili.

Einkaþjálfari og reiðkennari

Bergrún er eins og áður hefur komið fram uppalin í hestamennsku og hefur starfað við tamningar og þjálfun meira og minna síðan hún var unglingur. En hvernig fer það saman að vera reiðkennari og einkaþjálfari. „Ég var mikið spurð út í það hvað ég ætlaði mér með einkaþjálfaranáminu þegar ég hóf það, en markmið mitt var alltaf að ná að nýta mér þetta til frekari bætinga á reiðmennsku. Fyrst og fremst hjá sjálfri mér og svo auðvitað vonandi hjá fleiri knöpum líka. En ég er þeirrar skoðunar að knapar geti náð enn lengra í reiðmennsku og þjálfun með bættri líkamsvitund, auknu jafnvægi, styrk og úthaldi.“ Bergrún er nú þegar farinn að láta að sér kveða þegar kemur að bættri líkamsvitund knapa en hún hóf störf við Hólaskólann á Hólum í haust. „ Það má segja að draumur hafi ræst í haust þegar mér var boðið að taka við svokallaðri knapaþjálfun í Háskólanum á Hólum þar sem mitt hlutverk var að vinna með knöpum, greina styrkleika þeirra og veikleika tengda líkamsástandi. Vinna að því að styrkja veikleika og  aðstoða við að gera knapana meðvitaða um eigin líkamsástand.  Þetta er að mínu mati eitthvað sem á eftir að koma mjög sterkt inn í íþróttina á næstunni. Og getur svo að vægt sé til orða tekið skorið á á milli góðrar og framúrskarandi reiðmennsku“

Knapar þurfa að huga að heilsunni

Markmið í þjálfun hesta er fyrst og fremst að auka endingu þeirra og að þeir geti stöðugt verið að bæta sig. Þegar kemur að knöpunum sjálfum er eins og það sé hins vegar ekki jafn mikilvægt. Þegar unnið er við fag eins og hestamennsku eins fjölbreytt og það er, er mikilvægt að huga að líkamlegri heilsu. Starfið getur verið krefjandi líkamlega og ef ekki er hugað að réttri líkamsbeitingu er hætt við að ending okkar í faginu verði ekki löng. Jafnvægi, styrkur og þol eru mikilvægir þættir og geta stuðlað að miklum framförum í reiðmennsku, knapar í góðu formi líkamlega og andlega koma alltaf til með að standa betur að vígi en þeir sem ekki búa yfir sömu eiginleikum. En hvaða eiginleika telur Bergrún að knapar þurfi að huga að „Þegar kemur að þjálfun hrossa er mikilvægt að samhæfing knapa sé góð, að hann geti verið í góðu jafnvægi og haft stjórn á hreyfingu einstakra vöðva og vöðvahópa af nákvæmni til að gefa sem nákvæmastar ábendingar. Þetta eru allt þættir sem auðvelt er að æfa og það án þess að vera á hestbaki. Sé farið í að æfa þessi atriði markvisst með líkamsrækt eru miklar líkur á að árangurinn skili sér í bættri reiðmennski þegar komið er í hnakkinn. Það gleymist oft að þó svo að markmið séu að ná árangri í ákveðnu fagi geti aðrar íþróttagreinar bætt frammistöðu þína í þínu fagi og það á svo sannarlega við hér. Lyftingar, dans, yoga og hlaup er t.d. dæmi um íþróttir sem geta svo sannarlega skilað góðum árangri sé horft til reiðmennsku.“

 

Vísindalega sannað

Undanfarin ár hafa komið fram óyggjandi sannanir þess að þyngd og líkamsástand knapa hafa áhrif á hreyfigetu hesta og Bergrún er meðvituð um það. „Nú þegar hafa komið fram rannsóknir sem sýna fram á áhrif tengdum líkamsástandi knapa. Sem dæmi má nefna að hraði gangtegunda hafði áhrif á það hversu fljótt knapar mæddust á baki, hestar voru líklegri til að vera ósærðir þegar kviður/bak knapa var sterkari (knapar voru þá í betra jafnvægi) en eins kom það fram í rannsókn framkvæmdri hér á landi að þyngd knapa hafði áhrif á svif gangtegunda.“


Hvar á að byrja

Nú virðist það oft vera þannig að það erfiðasta við að koma sér í betra líkamlegt form eru fyrstu skrefin í átt að settu markmiði. En hvað er það að mati Bergrúnar sem hestamenn ættu að hafa fyrst í huga ef þeir vilja bæta líkamsástand sitt. „Það sem fyrst þarf að huga er að átta sig á því hvað gott líkamlegt ástand er. Þetta snýst ekki um að allir passi í eitt form, ef hægt er að taka þannig til orða. Gott líkamlegt ástand er fyrst og fremst að vera í góðu jafnvægi líkamlega og andlega, vera hraustur og meðvitaður. Þegar ég tala um að vera meðvitaður að þá á ég við að um leið og t.d. knapar eru meðvitaðir um styrkleika og veikleika sýna er auðveldara að vinna í því sem þarf að bæta. Það getur oft verið áskorun að finna út hverjir veikleikar hvers og eins eru og þar kemur fagfólk (einkaþjálfarar/sjúkraþjálfarar) sterkt inn. En með aðstoð þeirra má oft greina t.d. misstyrk, stífni eða aðra líkamlegar hömlur sem geta haft áhrif á okkur sem knapa. Þegar búið er að finna út hvað það er sem þarf að vinna í er fyrst byrjað á því að brjóta upp gamlan vana, það getur t.d. falist í því að gera æfingar á jörðu niðri áður en farið er í hnakkinn, gera varanlega breytingu á líkamsstöðu sem og að gera sér grein fyrir eigin hreyfimynstri og hvernig má svo breyta því til hins betra.


Ég er sannfærð um að þetta sé einn þáttur að miklum framförum í reiðmennsku hér á landi sem og annarsstaðar og hlakka til að fá að taka þátt í þróuninni“. Eiðfaxi þakkar Bergrúnu fyrir spjallið og óskar henni alls hins besta í framtíðinni.