laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

“Bæði frekar áberandi”

26. desember 2014 kl. 16:00

Nn frá Ketilsstöðum undan Natani frá Ketilsstöðum og Djörfungu frá Ketilsstöðum. Knapi Elin Holst.

Áfram um BLUP bomburnar í tamningu.

Hjá þeim Olil Amble og Bergi Jónssyni á Syðri-Gegnishólum eru tvær BLUP bombur í tamningu, Álfgrímur frá Syðri-Gegnishólum og hryssa undan Natani og Djörfungu frá Ketilsstöðum.

Álfgrímur er undan heiðursverðlauna hryssunni Álfadís frá Selfossi og Orra frá Þúfu. Hann er því albróðir þeirra Álfs, Álffinns og Álfhildar. Álfadís hefur gefið margan gæðinginn en hún á átta sýnd afkvæmi og eru þau öll með fyrstu verðlaun. Meðaltal aðaleinkunnar þeirra er 8.42, ekki slæmt það. Álfgrímur er rauðskjóttur og er með 125 í kynbótamati.

Hryssan undan Natani og Djörfungu er ekki enn komin með nafn en er frá Ketilsstöðum og er með 123 í kynbótamati. Djörfung, móðir hennar, er með góðan kynbótadóm og hlaut m.a. 9.5 fyrir skeið.

Bæði eru þau alhliðahross og telur Olil Amble þau vera mjög efnileg. “Það eru flottar hreyfingar í þeim báðum en Álfgrímur er mjög líkur systkinum sínum. Hann er með mjög mjúkar og flottar hreyfingar og mikið brokk. Hann hefur alltaf verið með brokk sem kjörgang eins og Álfhildur og myndi ég segja að hann væri líkari henni en Álfi.” segir Olil og bætir við að hann sé þó líkari þeim Álfi og Álffinni í útliti. “Hryssan er algjör raketta eins og mamma sín en þó með mikið betra brokk en hún. Hún er mjög næm og kraftmikil. “ segir Olil og bætir við, “Við gerum okkur góðar vonir með þau en þau eru bæði frekar áberandi.”

Álfgrímur frá Syðri-Gegnishólum, tveggja vetra